- Advertisement -

Skrifuðu óhróður og lygar um Ragnar Þór

En það er einfaldlega helber lygi.

Sólveig Anna Jónsdóttir.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifaði:

Ég var rétt í þessu að hlusta á viðtal við framkvæmdastjóra Gildis á Bylgjunni. Þar heldur hann því fram eins og ekkert sé að hann hafi aldrei sakað Ragnar Þór, formann VR, um ofbeldi eða offors. En það er alrangt. Framkvæmdastjórinn hefur sannarlega ásakað Ragnar Þór um slíka hegðun, og ekki bara Ragnar heldur okkur öll sem að samankomin voru á hinum sögufrægu mótmælum sem að haldin voru í Guðrúnartúni fimmtudaginn 30. nóvember.

Ég hef séð bréfið sem að hann og skrifstofustjóri Gildis sendu á stjórn VR. Og ég get sagt ykkur að það er algjörlega sjokkerandi að lesa þann hömlulausa og óforskammaða texta. Því er t.d. haldið fram að vegna mótmælanna og framkomu mótmælenda (alþýðufólks úr Grindavík sem var með börnin sín með sér, enda var þarna nákvæmlega ekkert að óttast, verkalýðsforkólfa úr Grindavík, meðlima úr stjórn Eflingar og annara sem vildu styðja réttlætisbaráttu Grindvíkinga) hafi Gildi þurft að virkja verkferil á skrifstofu lífeyrissjóðsins til að vernda starfsfólk fyrir ofbeldi, áreitni og ógnandi hegðun. Í bréfi framkvæmda og skrifstofustjóra Gildis er því haldið fram að þetta þrennt hafi sannarlega átt sér stað í mótmælunum 30. nóvember síðastliðinn. En það er einfaldlega helber lygi.

Einnig er því haldið fram að Ragnar Þór hafi “brotið gróflega gegn hagsmunum félagsmanna VR sem starfa hjá lífeyrissjóðnum” með hegðun sinni á umræddum mótmælum. Hegðun sem að framkvæmdastjóri og skrifstofustjóri Gildis álíta svo alvarlega að hún sé tilefni til formlegrar kvörtunar til stjórnar VR en stjórn félagsins á að “grípa til viðeigandi aðgerða” vegna Ragnars. Ekki kemur fram í hinum hysteríska texta hverjar þær aðgerðir eiga að vera; svipting á málfrelsi Ragnars? Eða dvöl í hinu margumrædda og ægilega verkalýðsfangelsi? Eða á kannski að neyða hann til að segja af sér formennsku? Það hefur auðvitað áður verið reynt í verkalýðs-veröldinni, að ljúga upp á fólk ofbeldis og glæpahegðun til að reyna að losna við það úr bransanum.

Á málflutningi framkvæmdastjórans í viðtalinu í morgun má helst skilja að hið svívirðilega og ömurlega rógburðar-bréf sem að hann sendi á alla stjórn VR hafi aðallega verið sent vegna þess að Ragnar Þór hafi ekki verið nógu duglegur að eyða eða svara ljótum kommentum vegna mótmælanna á Facebook. Það er magnað að hlusta á þann óheiðarleika sem birtist í þeim ömurlega útúrsúningi. Ég get ekki annað en haft verulegar áhygjur af dómgreind stjórnenda Gildis, sem er lífeyrissjóður Eflingarfólks. Menn sem eru svona uppstökkir og dómgreindarlausir hefðu kannski átt að velja sér annað starfssvið en að stýra fjárfestingum eftirlaunanna okkar?

Framkvæmdastjóri og skrifstofustjóri Gildis eiga að sjá sóma sinn í því að biðja Ragnar Þór og aðra mótmælendur afsökunar á þeim rógburði og ósannindum sem þau hafa sett fram í formlegu erindi til stjórnar VR. Samstundis. Og svo á framkvæmdastjóri Gildis að einbeita sér að því að finna til þess leið að vextir og verðbætur af lánum Grindvíkinga hjá Gildi verði felld niður, líkt og ákveðið hefur verið að gera hjá bönkunum. Ég minni á að um það snérust mótmælin. Að stjórnendur Gildis hafi tekið tíma í að skrifa óhróður og lygar um formann VR frekar en að vinna vinnuna sína er til svo mikillar skammar að mig skortir á endanum orð til að lýsa að fullu hneykslan minni á framferði þeirra.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: