- Advertisement -

„Slátrun á 12 þúsund börnum“

Kristinn Hrafnsson skrifar:

Stjórnmál Nú hafa fasistarnir í Ísrael lagt bann á sjónvarpsstöðina Al-Jazeera, ráðist inn í starfsstöðvar og lagt hald á búnað. Ég gef ósköp lítið fyrir þus að sjónvarpsstöðin sé málpípa emírsins í Katar. Það er álíka mikið satt og að BBC sé handbendi Sunak stjórnarinnar í Bretlandi og RUV sé hallt undir ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Ég þekki hins vegar ágætlega þessa þrjá miðla í gegnum samskipti, starf og samstarf og hef kynnst einna mestri fagmennsku á Al-Jazeera.

Síðdegis hemsótti ég áhrifamikið safn í Santiago, Chile, minningarsafn mannréttinda um hræðilega atburði á 16 ára tímabili herstjórnar í landinu frá 1973. Staldraði sérstaklega við umfjöllun um árásir á tjáninguna, fjölmiðla, bókabrennur sem fóru saman við ógeð pyntinga, mannshvörf og morð. Það eru aðeins 35 ár síðan þessu tímabili lauk og um 25 ár síðan Pinochet leiðtogi ógnarstjórnarinnar fékk skjól hjá vinkonu sinni Margréti Thatcher, þessari sem er í svo óskaplegu uppáhaldi hjá Sjálfstæðismönnum og dáð af Hannesi Hólmsteini (sem á sér þann draum að Katrín Jakobs verði forseti).

…að búið væri að drepa fleiri félagsmenn hans í Rafah…

Í morgun drakk ég kaffi með Nasser Abu Bakar, formanni blaðamannafélags Palestínumanna. Hann var stöðugt truflaður af skilaboðum í símanum því fregnir voru að berast að búið væri að drepa fleiri félagsmenn hans í Rafah á Gaza. Það eru a.m.k. 120 færri nöfn í hans félagatali en fyrir nokkrum mánuðum og órækar sannanir og vísbendingar um að Ísraelsher sé sérstaklega að leggja sig eftir því að drepa blaðamenn.

„Aldrei aftur“ blasir víða við í Minningarsafni mannréttinda. Hversu oft eigum við að þurfa að segja aldrei aftur, áður en við vöknum? Heima sé ég margar fréttir á vef RUV um að eurovision vika sé að hefjast. Ég ætla að biðjast undan því að „taka samtalið“ um þá tæru fyrirlitningu sem ég hef á þeirri skoðun að þjóðarmorð, slátrun á 12 þúsund börnum og morð á yfir 120 starfsfélögum mínum, eigi ekki að trufla glimmersýninguna.

Nunca más.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: