- Advertisement -

Þorsteinn Már: „Nokkuð ljóst að Már Guðmundsson er á leiðinni í fangelsi“

Í nýjasta hefti Vísbendingar er viðtal við Má Guðmundsson fyrrveradndi Seðlabankastjóra. Hér er einn kafli þess, en hann er átökin milli Seðlabankans og Samherja. 

„Gert til þess að hræða fólk frá því að gera það sem það telur skyldu sína“

Samherjamálið var fyrirferðamikið á tíma Más sem seðlabankastjóra. Það snerist um að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans rannsakaði meint brot Samherja og tengdra félaga á skilaskyldu á erlendum gjaldeyri og meint brot sem vörðuðu milliverðlagningu á þremur fisktegundum. Ráðist var í húsleit í höfuðstöðvum Samherja vegna þessa og Seðlabankinn kærði meint brot til embættis sérstaks saksóknara. Síðar kom hins vegar í ljós, vegna annmarka á lagasetningu, að lögaðilar gætu ekki borið refsiábyrgð á lögum og reglum um gjaldeyrismál. Seðlabankinn kærði þá fyrirsvarsmenn Samherja til saksóknara fyrir sömu meintu brot en kæran var felld niður árið 2015 og endursend bankanum. Þá felldi Seðlabankinn niður stærstan hluta málsins en ákvað að leggja stjórnvaldssekt upp á 15 milljónir króna á Samherja varðandi afmarkaðan hluta, sem fyrirtækið fékk síðar hnekkt fyrir dómstólum.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, kallaði rannsóknina aðför og eftir að málsmeðferð vegna stjórnvaldssektarinnar lauk sagði hann það vera alveg ljóst „að Már Guðmundsson hefur farið mjög illa með það vald sem honum hefur verið trúað fyrir.“ Síðar fullyrti Þorsteinn Már að það væri „nokkuð ljóst að Már Guðmundsson er á leiðinni í fangelsi.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Aðspurður um þessi ummæli segir Már að Þorsteinn Már hafi ekki reynst sannspár þar. „Segir það ekki allt sem segja þarf?“

Már segist vera með harðan skráp og vera með fulla vissu um að Seðlabankinn hafi einungis verið að sinna sínum embættisskyldum í þessu máli. Það hafi komið fram í dómsorðum að aðgerðir bankans hafi ekki verið tilhæfulausar. „Svo er rökstuddur grunur, sem þarf að liggja að baki kæru, er ekki það sama og sönnuð sekt.“

Segir aðgerðirnar ekki hafa verið tilhæfulausar

Duldir gallar í lögum hefðu gert það að verkum að allur refsibálkurinn í löggjöfinni sem gjaldeyriseftirlitið átti að starfa eftir hafi verið óvirkur. „Og það bara vissi enginn af því! Ég bara spyr, af hverju er það ekki rannsakað? Vegna þess að það náttúrlega er stórmál.“

Már bendir á að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans hafi ekki verið lögregla, heldur aðili sem var skyldaður til að kæra til lögreglu ef það reyndist rökstuddur grunur um meiriháttar brot á gjaldeyrislögum. Þótt kæra hafi verið send felist ekki í því fullyrðing á því að slíkt brot hafi átt sér stað og enn síður að hægt væri að fullyrða um sök eða sýknu á þeim grundvelli. „Hvað ætli þau séu mörg málin á Íslandi sem hafa verið kærð til lögreglu sem ekkert síðan verður úr út af erfiðri sönnunarbyrði og öðru þvíumlíku? Ef lögregla tekur við kæru, hvort sem það er nauðgunarkæra eða eitthvað annað, og fer í einhverjar yfirheyrslur og ferli og svo er málið fellt niður, voru þá aðgerðirnar tilhæfulausar?“

Hann segir að til séu fullt af dæmum um svona atburðarás í Íslandssögunni. „Auðvitað var í þessu tilfelli um að ræða fyrirtæki með sterka stöðu og aðgang að fjölmiðlum og kannski aðgang inn í pólitík og annað, og það náttúrlega litaði kannski málið.“

Samherji kærði Má og fjóra aðra stjórnendur Seðlabankans til lögreglu vegna rangra sakargifta. Það mál var fellt niður. Í kjölfarið fór Samherji í skaðabótamál þar sem Seðlabankinn var sýknaður af kröfum fyrirtækisins en þurfti að greiða Þorsteini Má 2,7 milljónir króna í skaða- og miskabætur.

Baldvin gerði ekki Samherja neinn greiða

Már segir að reynt hafi verið að persónuvæða málið. Það komi honum ekki á óvart enda sé það algengt víða um heim þegar rannsóknaraðilar eru að eiga við öfluga aðila. „Það er náttúrulega gert til þess að hræða fólk frá því að gera það sem það telur skyldu sína.“

Einn angi málsins sem vakti mikla athygli átti sér stað eftir opinn fund í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í mars 2019, þar sem vinnubrögð Seðlabankans í rannsókninni á Samherja höfðu verið til umfjöllunar. Eftir fundinn reyndi Már að eiga orðaskipti við Þorstein Má. Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más og einn helsti eigandi og stjórnandi Samherjasamstæðunnar í dag, brást illa við, stuggaði við Má og sagði: „Hafðu smá sómakennd og drullaðu þér í burtu.“

Már segir að hann hafi líklega verið eini maðurinn á staðnum sem var sallarólegur þegar þetta átti sér stað. „Það sagði einhver við mig, ég held að það hafi verið einhver stjórnmálamaður: „Vandinn við þig að þú ert orðinn svo gamall að þú haggast lítið við svona aðstæður.“ Ég ætla nú bara að segja sem minnst um þetta, ég meina, ekki gerði hann sér greiða með þessu og ekki gerði hann Samherja greiða. Kannski gerði hann mér bara greiða. En ég læt þetta bara liggja.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: