- Advertisement -

Jafnaðarstefnan er falleg, það er hún sem ég aðhyllist

Pólitísk ákvörðun um að veikja alla innviði svo verulega að það hægir á öllu svo allt verður miklu kostnaðarsamara.

Helga Vala Helgadóttir.

Stjórnmál Helga Vala Helgadóttir skrifar eftirtektarverða grein. Nokkurskonar uppgjör við þingmennskuna. Þó einkum við Samfylkingu Kristrúnar Frostadóttur:

Undanfarið ár hefur verið mér persónulega nokkuð flókið á köflum. Þar hafa skipst á skin og skúrir eins og gengur, en skinið hefur verið meira með mér eftir að ég tók ákvörðun um að fylgja hjarta mínu og sannfæringu og hefja aftur lögmennsku. Þar er auðvitað inni á milli verið að fást við gríðarflókin mál en þar skín samt sól yfir því að finnast maður þó vera að gera gagn og það með hjarta og heila.

Það sem svo hefur komið fyrir augu almennings að undanförnu varðandi afstöðu ýmissa til fólks í leit að vernd og þeim verkefnum sem því fylgja hefur legið þungt á mér, já og greinilega þyngra en ég gerði mér grein fyrir, því þegar ég las þessa grein eftir þessar djúpvitru konur Þorbjörg Þorvaldsdóttir og Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, þá brast bara eitthvað. Einhver verndarmúr sem ég hafði byggt upp til að reyna að skilja.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég er svo þakklát þeim fyrir að rétta kúrsinn. Það er nefnilega jafnaðarstefnan sem er falleg, það er hún sem ég aðhyllist og þar eru ákveðin prinsipp sem ekki er gefinn afsláttur af. Jafnaðarstefnan er annað en frjálshyggjan. Í jafnaðarstefnunni má finna samkennd en ekki einstaklingshyggju þar sem kerfin eru svelt því allt á að vera á forsendum einstaklingsins.

Það er ekki náttúrulögmál að innviðir séu laskaðir. Það er pólitísk ákvörðun stjórnmálafólks sem vill að þeir séu laskaðir svo hægt sé að einkavæða þá, færa þá til einkavina sem geta grætt þar til tapið kemur. Þá skulum við hin borga. Almenningur. En þetta er ekkert nýtt. Við fjölskyldan þurftum t.d. að berjast fyrir því að mömmu okkar yrði ekki fleygt út á götu af Landakoti árið 2003 þegar loka þurfti deild í hagræðingarskyni og hún var orðin fárveik af Alzheimer. Slíkar sögur voru daglegt brauð þá en þá voru líka Sjálfstæðisflokkur og Framsókn við völd og höfðu verið lengi. Þá eins og nú eru slíkar sögur af fólki sem hent er á götuna á sjúkrahúsum landsins daglegt brauð en þá voru örfáir sem leituðu verndar – teljandi á fingrum annarrar handar. Þannig er ekkert samasemmerki milli laskaðra innviða og fólks á flótta, ekki frekar en að það sé samasemmerki milli laskaðra innviða og íbúa í Norðurmýri eða Fossvogi. Við þurfum öll á þessari þjónustu að halda og borgum flest í okkar sameiginlegu sjóði til að geta haldið grunninnviðum uppi. Það sem er að í okkar samfélagi er annars vegar pólitísk ákvörðun um að láta þá ofurríku sleppa við að borga skatta í samræmi við auðævi sín og hins vegar pólitísk ákvörðun um að sóa fjármunum okkar með óskýrri sýn á þau verkefni sem við þurfum að sinna, því innri átök um stóla og bitlinga, gæluverkefni um fjölgun ráðuneyta og sendiráða, blinda fólki sýn. Pólitísk ákvörðun um að veikja alla innviði svo verulega að það hægir á öllu svo allt verður miklu kostnaðarsamara, hvort sem um er að ræða eldra fólk sem bíður í rándýrum sjúkrarýmum á hátæknisjúkrahúsi en ætti að vera á miklu ódýrara hjúkrunarrými eða fólk í leit að vernd sem bíður og bíður eftir niðurstöðu án þess að fá leyfi til að leggja sitt af mörkum í okkar sameiginlegu sjóði.

Við þurfum meiri mennsku, meiri jafnaðarmennsku og miklu miklu betri yfirsýn í íslensk stjórnmál. Þá mun okkur vegna betur.

Takk Þorbjörg og Inga Björk. Þið eruð sannar jafnaðarkonur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: