- Advertisement -

Ríkisstjórnin leggi spilin á borðið

„Fyrir jól t.d. var frumvarpið sem innviðaráðherra kom með búið að liggja inni í ráðuneytinu í einhverjar þrjár vikur.“

Björn Leví Gunnarsson.

Alþingi „Í núverandi aðstæðum þar sem er verið að opna aftur í Grindavík og ef ekkert annað breytist, kvikusöfnun heldur áfram, það gýs einhvers annars staðar en kvikusöfnun heldur áfram, verður þá hægt að hefja aftur skólastarf í Grindavík að lokum? Hversu lengi má svipað ástand og er núna vara til að slíkt sé talið öruggt? Eða verður það aldrei talið öruggt? Það þarf að svara þessum einföldu spurningum í raun og veru,“ sagði Björn Leví Gunnarsson Pírati í Alþingi.

„Ég geri mér grein fyrir því að svörin eru ekki einföld en spurningarnar eru einfaldar og það er augljóst að stjórnvöld ættu að svara þessum spurningum. Þetta er það sem ég var að gera athugasemdir við í málflutningi stjórnarþingmanna hérna áðan, um þennan skort á ákvörðunum. Það hafa verið teknar góðar ákvarðanir, það hafa verið teknar slæmar ákvarðanir en það liggur ekki fyrir að stjórnvöld viti í rauninni hvað þau eru að gera nema að bregðast hratt við. Það er það eina jákvæða sem ég hef séð í stöðunni, það er brugðist hratt við þegar náttúruhamfarirnar verða. Það er ekkert annað í boði, að sjálfsögðu ekki. Ég held að allir hérna inni hefðu brugðist svipað við,“ sagði Björn Leví.

„Ég er að biðja um framtíðarsýnina, að spilin séu einfaldlega lögð á borðið. Miðað við núverandi aðstæður, hvað gerist þá? Hvað gerist næstu fimm eða tíu árin? Og segja síðan: Við vitum ekki hvort þessar aðstæður verði viðvarandi eða ekki. Ef þær breytast og verða svona, sem gefur fullt af sviðsmyndum en ekkert rosalega margar í rauninni, þá breytast aðstæðurnar, breytast forsendurnar og skilyrðin fyrir því hvort hægt sé að vera með einhverja starfsemi í Grindavík eða ekki. En við fáum þetta ekki. Og bara aftur eins og í Covid þá kalla ég eftir því að stjórnvöld gyrði sig í brók og skili fólki þessum greiningum, skili þinginu þessum greiningum, sýni að það sé verið að gera áætlanir sem hönd er á festandi, þetta sé ekki bara skyndiviðbragðsstjórn þar sem við þurfum að fara í gegnum þetta á handahlaupum,“ sagði Björn Leví og svo þetta:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Fyrir jól t.d. var frumvarpið sem innviðaráðherra kom með búið að liggja inni í ráðuneytinu í einhverjar þrjár vikur, ákvörðunin um hvað átti að gera, þangað til að það kom til þingsins sem þurfti svo að afgreiða það á innan við viku, á sama og engum tíma. Það er ekki boðlegt að við séum að vinna þetta svona. Ríkisstjórnin þarf að sýna betur á spilin og sýna hvað er í vinnslu, hverjar framtíðarhorfurnar eru miðað við mismunandi sviðsmyndir. Þannig að ég hvet ríkisstjórnina enn og aftur til að vinna vinnuna sína.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: