- Advertisement -

Þórólfur segir apabólu vel geta borist hingað: „Margir þeirra sem nú eru að greinast eru karlar sem stunda kynlíf með körlum“

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir útilokar það alls ekki að sjúkdómurinn apabóla (e. Monkeypox) berist til Íslands á næstunni. Veiran hefur greinst í nokkrum Evrópulöndum og í Bandaríkjunum undanfarið.

Vegna þess að veiran er komin þetta nálægt okkur virðist Þór´ólfur hafa séð tilefni til að fjalla um sjúkdóminn á vef Landlæknis. Við skulum hreinlega gefa sóttvarnarlækninum orðið:

Undanfarið hafa borist fréttir um sýkingar af völdum monkeypox veiru í nokkrum löndum í Evrópu t.d Bretlandi, Portúgal, Spáni, Ítalíu, Belgíu og Svíþjóð en einnig hefur sjúkdómurinn greinst í Bandaríkjunum og Kanada. Hjá flestum hefur monkeypox veiran verið staðfest en hjá öðrum ekki enn sem komið er.

Monkeypox sjúkdómur er orsakaður af veiru sem er náskyld bólusóttarveiru (orthopox) og er einkum þekktur hjá dýrum en einnig mönnum. Smit frá dýrum til manna eru sjaldgæf og sömuleiðis smit milli manna.

Sjúkdómurinn hefur til þessa aðallega verið greindur í Mið- og Vestur-Afríku en er nú að greinast í Evrópu hjá einstaklingum sem sumir hverjir hafa verið í Afríku en aðrir ekki. Smit berst í fólk með náinni snertingu ýmist sem dropasmit með hósta/hnerra eða sem snertismit með vessa sem myndast í útbrotum á húð. Margir þeirra sem nú eru að greinast eru karlar sem stunda kynlíf með körlum og talið er líklegt að smit hafi borist með kynmökum í þeim hópi.

Meðgöngutími sýkingarinnar (tími frá smiti þar til einkenni koma fram) er yfirleitt ein til tvær vikur en getur verið allt upp í þrjár vikur. Sjúkdómurinn er yfirleitt vægur og gengur yfir af sjálfsdáðum á einni til tveimur vikum. Hjá um 3% smitaðra getur hann hins vegar verið alvarlegur og valdið dauða einkum hjá ónæmisbældum einstaklingum og börnum. Það sem einkennir sjúkdóminn eru klæjandi útbrot sem gjarnan byrja í andliti en færast síðan niður líkamann, þar með talið kynfæri. Í framhaldinu verða útbrotin að bólum með vessa sem líkjast hlaupabólu og er vessinn smitandi. Þegar bólurnar hafa þornað er einstaklingurinn ekki lengur smitandi.

Sjúkdómsmyndin getur líkst öðrum sjúkdómum eins og hlaupabólu eða sárasótt en greining er staðfest með rannsókn á vessa úr bólunum.

Bólusetning með bóluefni gegn bólusótt er talin geta verndað gegn smiti en aðgengi að slíkum bóluefnum er takmarkað. Lyfjameðferð með veirulyfinu tecovirimat er talin geta gagnast við sýkingunni en það lyf er ekki á markaði hér.

Rétt er að árétta að monkeypox er afskaplega sjaldgæf sýking og ekki útilokað að hún berist hingað til lands. Almenningur og heilbrigðisstarfsmenn eru beðnir um að hafa greininguna í huga, sérstaklega hjá þeim sem hafa verið á ferð erlendis og eru með einkennandi útbrot.“


Auglýsing