- Advertisement -

Öfgakonur nafngreina tónlistarmanninn sem kærður var fyrir nauðganir – Besti vinurinn: „Af hverju var þetta einn af mínum bestu vinum?“

Aðgerðahópurinn Öfgar hefur nafngreint tónlistarmanninn sem kærður var af fjórum konum fyrir kynferðisbrot. Það gerði hópurinn í gær á Twitter og lýsti við sama tilefni yfir fullum stuðningi við alla konurnar sem kærðu.

Ólöf Tara Harðardóttir, einkaþjálfari og einn af stjórnarmeðlimum Öfga, ver nafnbirtinguna fullum fetum og segir:

„Sannleiksreglan gildir í íslensku réttríki. Sannleikurinn er sá að hann hefur verið kærður 4x fyrir nauðgun. Saman með tjáningarfrelsi þá fellur þetta ekki undir meiðyrði.“

Samkvæmt fréttaflutningi af málinu hafa fjórar konur kært tónlistarmann, sem hefur fyrst og fremst komið fram sem trúbador, fyrir kynferðisbrot en hann hefur aldrei verið sakfelldur. Fyrrverandi besti vinur mannsins, sem einnig er tónlistarmaður, segir manninn hafa nauðgað konunni sinni fyrir þremur árum.

Í samtali við DV vill maðurinn ekki láta nafns síns getið en segir að málið hafi haft skelfileg áhrif á samband hans við konuna sína.

„Eftir málið þá eyðilagðist allt traust í sambandinu og maður fann sig knúinn til að verja hana fyrir öllu mögulegu og yfirleitt ef það tengdist öðrum karlmanni og oft var maður búinn að ákveða sjálfur að eitthvað væri ekki í lagi. Maður fór að reiðast út af litlum hlutum og ég áttaði mig á því núna fyrir stuttu hversu svakalega djúp áhrif þessi atburður hafði á mig.

Það er ótrúlegt hvað einn einstaklingur getur skemmt út frá sér með því að brjóta svona af sér og oft hef ég hugsað af hverju var þetta ekki einhver ókunnugur. Af hverju var þetta einn af mínum bestu vinum?“