- Advertisement -

„Að tilheyra þjóð er að tilheyra samfélagi – Þjóðernisofstopi er ein af helstu plágum mannkynsins“

Rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson ritar flottan pistil á Facebook-síðu sinni undir yfirskriftinni: Þjóð.

„Þetta er opið mengi sem erfitt getur reynst að afmarka. Stundum hefur verið reynt að skilgreina þjóðir út frá landamærum, tungumáli, uppruna, menningararfi og menningararði, en ekkert af þessu er alveg einhlítt.

Langafi minn Thor Jensen var danskur og danska var hans fyrsta mál og hann var kominn af dönsku sveitafólki og iðnaðarmönnum. Hann fór tíu ára á verslunarskóla fyrir fátæka föðurlausa drengi og fór eftir þá dvöl 14 ára gamall sem verslunarsveinn til Íslands þar sem hann ílentist, eignaðist konu og börn, líf og tilveru og nýtti sér vel þekkingu sína á verslunarrekstri.“

Guðmundur Andri segir að Thor hafi „áfram að vera Dani. En hann varð líka Íslendingur; hann leit á sig sem Íslending; hann gerðist Íslendingur. Hann lærði tungumálið með því að lesa blöðin og svo Íslendingasögurnar, tileinkaði sér þannig menningararfinn – og menningararðinn. Og auðvitað fyrst og fremst með því að kjafta við fólkið.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og Guðmundur Andri telur það staðreynd að „það að tilheyra þjóð er að tilheyra samfélagi. Það er gagnkvæm ákvörðun. Þær stundir komu vissulega að honum fannst hann hvorki Dani né Íslendingur, en almennt farnaðist honum hér vel nema honum tókst aldrei eitt helsta ætlunarverkið: að sanna að hér væri hægt að stunda myndarlegan og arðbæran landbúnað.“

En „hann varð Íslendingur. En það er samt ekki hægt að negla niður mómentið þegar það gerðist, frekar en að við getum bent á mómentið þegar sá fjölskrúðugi hópur sem hér settist að á landnámsöld, einkum frá Írlandi, Suðureyjum og Noregi, verður að Íslendingum.“

Í færslunni nefnir Guðmundur Andri að „fyrsta dæmið um orðið „íslenskur“ í varðveittum texta er í ljóði – nema hvað – og er eftir Sighvat Þórðarson sem var uppi á 11. öld, og frá Apavatni en fylgdi Ólafi Haraldssyni Noregskonungi sem hirðskáld, en þau voru rapparar þeirra tíma og ætlað að rappa um sigra og auðsæld og mannkosti konungsins.

Sighvatur hitti konu sem hafði á orði að hann hefði svört augu og þá kom vísa – hér er fyrriparturinn: „Oss hafa augun þessi /íslensk, konan, vísað / brattan stíg að baugi / björtum langt hin svörtu.“ Þetta þýðir nokkurn veginn: þessi svörtu augu, kona góð, hafa vísað mér langt um torfærur að baugi (hring, gulli, fjársjóði). Hann var sem sagt með dökk augu, væntanlega ekki verið ljóshærð og bláeyg vöðvabolla. Hann var skáld en ekki „víkingur“. Þetta er opið mengi.“

Hann bætir þessu við:

„Það er alveg um að gera að vera ánægður og glaður yfir því að búa hér í þessu fagra og vindasama landi svo grænu og bláu og fossaríku, tala þetta ilmríka og glitrandi tungumál, eiga þennan menningararf, dapurlegan og drungalegan og glæsilegan og sagnaríkan og ávaxta þennan menningararð með alls konar list og siðum. En sú gleði má aldrei vera útilokandi“ að mati Guðmundar Andra sem segir einnig að „þjóðernisofstopi er ein af helstu plágum mannkynsins; við eigum aldrei að lasta siði og venjur annarra þjóða, jafnvel þó að fulltrúar þeirra búi hér með okkur og eigi kannski og vonandi eftir að gerast hluti af okkar þjóð með sínum hætti.“

Að lokum segir Guðmundur Andri:

„Ég sé langafa minn í því fólki sem hingað leitar að landi og samfélagi, lífi og tilveru. Við eigum ekki að mæta neinum með krepptum hnefa – heldur opnum lófa, opnum örmum. Gleðilega þjóðhátíð!“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: