- Advertisement -

Ætlar Sigurður Ingi að reka sömu ónýta stefnu Sjálfstæðisflokksins?

„Það er gríðarlega góð saga að segja um stöðugleika, lága verðbólgu, sífellt lækkandi vexti, sífellt vaxandi hagvöxt og vaxandi kaupmátt í landinu, kaupmátt sem við höfum ekki séð í mjög langan tíma án þess að það hafi kostað gríðarlega há verðbólguskot.“

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra á Alþingi.

Alþingi „Hæstvirtur forsætisráðherra þessarar ríkisstjórnar er í fullkominni afneitun um stöðu efnahagsmála á Íslandi. Þetta kom skýrt fram í fyrirspurnatíma á dögunum þegar Bjarni Benediktsson sagði, með leyfi forseta, af því að þetta er bein tilvitnun, að Ísland væri í bestu efnahagslegu stöðu í lýðveldissögunni. Ég held satt að segja að fólkinu í landinu svíði svona yfirlýsingar,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu.

Jóhann Páll hélt áfram: 

„En hvað segja hagtölurnar okkur? Við erum að sjá heilt ár af vöxtum yfir 9%, fjögur ár af verðbólgu yfir markmiði og nú stefnir í níu ár af hallarekstri ríkisins. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hjá heimilum hefur dregist saman á fimm af síðustu sex ársfjórðungum,“ sagði þingmaðurinn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Þetta er staðan sem ríkisstjórnin hefur komið okkur í.“

„Ofan á allt saman bætist, eins og rætt var hér rétt í þessu, samdráttur í hagkerfinu, 4% samdráttur á fyrsta ársfjórðungi. Nú má auðvitað vera, og mér heyrðist það reyndar á hæstvirtur ráðherra hér áðan, að markmiðið sé að búa til lítils háttar samdrátt til að ná tökum á verðbólgunni en þetta virðist ekki ætla að takast því að þrátt fyrir þennan efnahagssamdrátt tikkaði verðbólga upp í síðustu mælingu. Hún fór ekki niður,“ benti Jóhann Páll á.

Hann lauk ræðu sinni:

„Þetta er staðan sem ríkisstjórnin hefur komið okkur í, sem fólkið í landinu finnur fyrir þegar það fer út í búð að versla eða þegar það borgar af lánunum sínum. Og þetta er það sem hæstvirtur forsætisráðherra þessarar ríkisstjórnar kallar bestu efnahagslegu stöðu í lýðveldissögunni. Er eftirmaður hans á stóli fjármála- og efnahagsráðherra jafnánægður með þessa stöðu? Ætlar hæstvirtur ráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, að halda áfram að reka sömu ónýtu stefnu Sjálfstæðisflokksins í ríkisfjármálum og efnahagsmálum eða hefur nýi fjármálaráðherrann kjark og styrk til að skipta um kúrs?“

Sigurður Ingi fjármálaráðherra brást við orðum þingmannsins Jóhanns Páls.

…horfur hér til næstu ára gríðarlega góðar…

„Ef háttvirtur þingmaður af einhverri sanngirni skoðaði raunverulega þær hagtölur sem hann síðan velur alltaf nokkrar úr og fer með hér upp í pontu, eigum við að segja allt frá árinu 2013 þegar Framsóknarflokkurinn settist í ríkisstjórn eftir setu t.d. Samfylkingarinnar í ríkisstjórn — ég hafði haldið því fram á þeim tíma að ef sú stefna sem Framsóknarflokkurinn og samstarfsflokkurinn Sjálfstæðisflokkurinn hefði komist til valda einu eða tveimur árum fyrr hefðum við getað snúið við erfiðri stöðu eftir efnahagshrunið, sem sú ríkisstjórn gerði býsna vel að vinna bug á, og þá hefðum við getað byrjað einu eða tveimur árum fyrr sagði fjármálaráðherra Íslands, Sigurður Ingi Jóhannss formaður Framsóknarflokksins og fjármálaráðherra Íslands.“

„Ef háttvirtur þingmaður skoðar hagtölurnar er augljóst hvað gerist við það að tekin er stefnumörkun og stefnubreyting frá árinu 2013. Ef háttvirtur þingmaður skoðar síðan kaupmáttaraukningu og alla þróun efnahagslífsins allt frá þeim tíma þangað til við erum komin í heimsfaraldur Covid þá er það býsna góður tími í sögu Íslands,“ sagði Sigurður Ingi.

Næst tókst ráðherrann á flug:

„Það er gríðarlega góð saga að segja um stöðugleika, lága verðbólgu, sífellt lækkandi vexti, sífellt vaxandi hagvöxt og vaxandi kaupmátt í landinu, kaupmátt sem við höfum ekki séð í mjög langan tíma án þess að það hafi kostað gríðarlega há verðbólguskot.“

Það var og. Áfram veginn með Sigurði Inga:

„Síðan höfum við fengið heimsfaraldur Covid. Ofan í kaupið fengum við stríðsástand í Evrópu sem hefur fyrst haft þau áhrif hér að verðbólga rauk upp og síðan er það vandamál okkar, sem er íslenskt vandamál, að ná henni niður. Því verkefni erum við í núna. Og hvort var háttvirtur þingmaður að tala um að hér væri samdráttur eða þensla í landinu, því að það er akkúrat vandinn sem Seðlabankinn og ríkisfjármálin eru að glíma við. Það er nefnilega hvoru tveggja. Það er vandasamt að finna það jafnvægi. Við erum að reyna það í fjármálaáætluninni og mér sýnist að það séu býsna góð teikn á lofti um að það takist. Ef það tekst þá eru horfur hér til næstu ára gríðarlega góðar og um það eru allir sammála, þar á meðal Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: