- Advertisement -

Allir íslenskir stjórnmálamenn í sama flokknum

Umræðan Tilvitnun dagsins er sótt í Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins. Þar fjallar Davíð Oddsson um málefni innflytjenda.

„Á Íslandi eru innflytjendamálin vita stjórnlaus. Táknmynd þess er að milljarða vantar upp á að nýsamþykkt fjárlög um það efni standist. Hvernig í ósköpum má þetta vera? Og hvers vegna þessi ærandi þögn?

Á sama tíma er öllum fjölmiðlum send frétt frá fjármálaráðherra um að ríkisstjórnin hafi ákveðið að skylda ráðuneyti ríkisins til að greiða framvegis 10 milljóna króna áfengisgjald til ríkisins.

Bréfritari, sem ætíð vill leggja sitt af mörkum, ákvað í tilefni dagsins að flytja fimmhundruð króna seðil, sem hann var með í vasanum, yfir í rassvasann og mun næstu þrjá mánuði flytja seðilinn vikulega á milli vasanna í buxunum. Í lok tímabilsins mun hann fara yfir bókhaldið og kanna hver staðan sé og ákveða framhaldið með hliðsjón af því.“

„En þótt sex mánaða gömul fjárlög séu með gat upp á marga milljarða vegna innflytjendamálanna einna hafa íslenskir „stjórnmálamenn“ aldrei rætt þennan málaflokk af alvöru. Í þessum efnum, eins og svo mörgum öðrum, eru allir íslenskir stjórnmálamenn í sama flokknum. Það væri ósanngjarnt að segja að þeir stæðu þar allir hreyfingarlausir. Öðru nær. Þeir eru allir á harðahlaupum. Allir stefna þeir blindandi að sama markinu, hengifluginu, sem þeir vita hvorki né vilja vita hvar er.

Vissulega mætti ætla að þeir sem hlaupa svona hratt og með bundið fyrir augu séu ólíklegir til að ljúka hlaupinu. En menn geta ekki treyst því. Þegar allir eru jafn einbeittir í að vita ekki hvað þeir eru að gera skiptir þá engu þótt þar bruni blindingjar. Vissulega detta þeir reglubundið hver um annan þveran. En það er hluti af lögmálinu um að sælt sé sameiginlegt skipbrot og breytir engu um aðferðafræðina.“