- Advertisement -

Áramótaávarp: Við Dorrit farin að hlakka til frjálsari stunda

Ávarp „Forseti Íslands er eini kjörni fulltrúinn sem valinn er af þjóðinni allri, hvorki háður flokkum né öðrum hagsmunum. Fólkið treystir því að hann bregðist ekki á örlagastundum. Það er einn helsti hornsteinn íslenskrar stjórnskipunar, lýðræðis í landinu. Á tímum breytinga og umróts fól þjóðin mér þann trúnað að gegna skyldum forseta og ég hef leitast við að sinna því í samræmi við samvisku mína og bestu getu. Þótt ákvarðanir hafi á stundum verið erfiðar hefur það líka veitt mér mikla gleði að vera þátttakandi í verkefnum á mörgum sviðum, leggja lið og smíða með öðrum nýjar stoðir sem treysta stöðu Íslands í veröldinni og afkomu fólksins í öllum byggðum. Þótt árin hafi liðið furðu fljótt er samt langur tími frá því ég ávarpaði ykkur fyrst úr þessum sal og því eðlilegt að við Dorrit og reyndar fjölskyldan öll séum farin að hlakka til frjálsari stunda,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson í áramótaávarpi sínu á nýársdag árið 2012. Fyrir réttum fjórum árum.

Þá var á honum að skilja að hann ætlaði að draga sig í hlé. Vera ekki aftur í framboði.

Síðar snérist honum hugur, einsog kunnugt er. Þá var skrorað á hann að bjóða sig fram á ný. Sem hann gerði. Rökin voru óvissa í þjóðmálum. Evrópusambandsaðild, óvissa um framtíðarskipulag stjórnskipunar landsins og Icesave.

Um miðjan október síðastlðinn var Ólafur Ragnar gestur í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni. Þar andmælti hann að sama óvissa sé nú og var fyrir fjórum árum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Nokkrum vikum eftir að ég flutti nýársávarpið, varð ljóst að fólkinu í landinu, ekki mér, heldur mörgu fólki fannst vera það mikil óvissa, bæði um stjórnskipunina, um Evrópusambandið, um Icesave og margt annað. Þegar þau voru að höfða til mín um að breyta ákvörðun minni þá vísuðu þau til þessara víðtæku og margslungnu óvissu. Þegar ég svo útskýrði, í mars, af hverju ég hefði breytt um afstöðu þá var það með tilvísun til þessarar ríkulegu tilfinningu, að minnsta kosti hluta þjóðarinnar, um þessa óvissu. Mér finnst ekki rétt að segja að það hafi verið hugsun mín, þannig lagað, en tilvísun til óvissunnar var ríkur þáttur í því að ég tók á endanum þá ákvörðun að gefa kost á mér aftur,“ sagði hann í Sprengisandi.

Í áramótaávarpinu 2012 sagði hann einnig: „Ákvörðun mín felur því ekki í sér kveðjustund heldur upphaf að annarri vegferð, nýrri þjónustu við hugsjónir sem hafa löngum verið mér leiðarljós; frjálsari til athafna en áður og ríkari af reynslunni sem forsetaembættið færir hverjum þeim sem þjóðin kýs. Sá sem situr Bessastaði er sífellt minntur á drauma frumherjanna sem færðu Íslandi sjálfstæði, á andann sem glæddi menningu og móðurmál nýju lífi, á vonir og þrár þjóðarinnar. Hér er fjöreggið sem okkur er falið; varðveisla þess æðsta skylda forsetans.“

Finnst honum hann vera ómissandi, Sprengisandur í október:

En er ekki slæmt ef forseti telur sig vera ómissandi?

„Ég hef aldrei talið mig ómissandi. Aldrei talið mig ómissandi.“

En aðrir gera það?

„Það verða þeir að gera upp við sig. Taki ég þá ákvörðun að hætta vona ég að því verði sýndur fullur skilningur. Ég er ekki að hlaupa frá verki taki ég þá ákvörðun. En það er víðs fjarri að ég telji mig ómissandi.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: