- Advertisement -

Brýn þörf fyrir umboðsmann sjúklinga

„Ung kona sem greindist með brjóstakrabbamein var ranglega greind og fékk því ekki viðeigandi meðferð fyrr en allt of seint.“

Alþingi Halldóra Mogensen hélt eftirtektarverða ræðu á Alþingi í gær:

„Í umsögn um þingmál Pírata um umboðsmann sjúklinga veitir Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra, okkur mikilvæga innsýn í reynsluheim notenda heilbrigðiskerfisins. Mig langar að lesa upp úr umsögninni, með leyfi forseta:

„Ung kona sem greindist með brjóstakrabbamein var ranglega greind og fékk því ekki viðeigandi meðferð fyrr en allt of seint. Þegar það kom upp var sjúkdómurinn of langt genginn til að hægt væri að bjarga lífi hennar. Hún hafði sjálf ekki burði með langt gengið krabbamein til þess að aðhafast nokkuð en eftir andlátið vantaði fjölskyldu hennar ráðgjöf um hvert þau gætu snúið sér þar sem um dýrkeypt mistök var að ræða sem kostuðu hana lífið.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Önnur ung félagskona Krafts, greind með heilaæxli, hafði samband við félagið þar sem hún var ráðalaus. Læknirinn hennar hafði neitað henni um myndgreiningu á höfði eftir ítrekaðar óskir hennar um að framkvæma viðeigandi rannsókn þar sem hún var byrjuð að sýna einkenni sem upphaflega komu fram við greiningu á sjúkdómi hennar. Læknir stúlkunnar var yfirlæknir og því átti hún í miklum erfiðleikum með að fá álit annars læknis innan spítalans þar sem þeir störfuðu allir undir viðkomandi lækni. Þegar hún leitaði til spítalans höfðu þeir engin svör fyrir hana og var hún í mikilli angist og ráðalaus [um] hvernig hún ætti að snúa sér í þessu.

Það væri þinginu til sóma…

Umboðsmaður sjúklinga hefði í þessum tilvikum verið nauðsynlegur. Kraftur hefur fjölmörg önnur dæmi þar sem félagsmenn okkar hefðu nauðsynlega þurft á umboðsmanni sjúklinga að halda. Hann gæti bent heilbrigðisyfirvöldum á sjónarmið sjúklingsins, miðlað málum, og lagt til úrbætur í heilbrigðiskerfinu með hagsmuni sjúklinganna að leiðarljósi.“

Það eru komnar 14 umsagnir um umboðsmann sjúklinga. Það væri þinginu til sóma að klára þetta mál sem fyrst, enda fagna allir þeir sem hafa sent inn umsagnir málinu og styðja að það mál verði klárað sem fyrst. Við þurfum að styðja við rödd og réttindi fólks, oft á erfiðasta tímabili í lífi þess þegar það er sjúklingar í heilbrigðiskerfinu og þarf á aðstoð að halda.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: