- Advertisement -

Eflingarfélagar þekkja mátt samstöðunnar

Sólveig Anna:

Gera á geðþóttamat eins embættismanns æðra rétti verkafólks til að semja um laun fyrir unna vinnu, æðra stjórnarskrár-vörðum rétti til að leggja niður störf til að þrýsta á um ásættanleg kjör.

Í gær hlýddi ég á málflutning í tveimur dómsmálum, annarsvegar í svokölluðu innsetningarmáli ríkissáttasemjara gegn Eflingu og hinsvegar í máli SA gegn Eflingu. Var það bæði áhugavert og lærdómsríkt. Hin raunverulega og óumdeilanlega staða sem upp er komin lýstist upp með eins skýrum hætti og hægt er að hugsa sér:

Sett hefur verið af stað tilraun af hálfu SA og ríkissáttasemjara um að gera formönnum verkalýðsfélaga og samninganefndum ófært að sinna sínu grundvallarhlutverki sem er að leiða kjarasamningagerð til lykta. Gera á ríkissáttasemjara de facto að einræðisherra vinnumarkaðarins, þess bæran að svipta forystu verkalýðsfélags og samninganefnd lýðræðislegu umboði meðlima félaganna ef að hann svo lystir. Gera á geðþóttamat eins embættismanns æðra rétti verkafólks til að semja um laun fyrir unna vinnu, æðra stjórnarskrár-vörðum rétti til að leggja niður störf til að þrýsta á um ásættanleg kjör. Æðra grundvallarmannréttindum okkar sem frjálsra borgara í lýðræðisríki. Breyta á miðlunartillögu í óumræðanlegt og óhnekkjanlegt valdboð frá stjórnvaldi sem standa á utan við eðlilega stjórnsýslu í lýðræðissamfélagi, ó-áskoranlegt og ósnertanlegt. Setja á upp kerfi þar sem að um leið og formanni verkalýðsfélags er afhent tilbúin og undirrituð miðlunartillaga ríkissáttasemjara, án nokkurs samtals eða þess að ráðgast sé á nokkrum tímapunkti um þá fyrirætlan hins háa herra, missir formaður þau völd sem að honum hafa verið falin af félögum sínum og er samstundis kominn undir friðarskyldu vegna þess að í heimi valdastéttarinnar á nú miðlunartillga eins embættismanns að hafa nákvæmlega sama lagalega gildi og kjarasamningur undirritaður af formanni verkalýðsfélags og samninganefnd.

Nákvæmlega svona er staðan. Hér eru engar ýkjur. Eins og hrikalegt og það nú er.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í ljósi þess hve sturlað ástandið er birti ég hér mynd til að hressa sjálfa mig og vonandi aðra við:

Hér má sjá Eflingar-félaga sem starfa hjá Samskipum, Olíudreifingu og Skeljungi ásamt alræmdri og umdeildri forystu Efingar gera það sem Halldór Benjamín framkvæmdastjóri kallar að „telja og velja“ en það þýðir að vera kunnáttusamleg og útsjónarsöm. Aðdáunarverðir eiginleikar hjá efnahagslegri og pólitískri valdastétt en óbærilega svívirðilegir ef að þeir birtast hjá verka og láglaunafólk og tilefni til mikilla perlu-kreistinga og ilmsalta-innöndunnar. Við eigum bara að lufsast um, ófær um að hugsa og þar af leiðandi ófær um að vinna. Aðeins fær um að slíta okkur út við endalausa vinnu, aðeins fær um undirgefni og ó-sjálfsvirðingu. Og guð hjálpi okkur ef að við dirfumst að eignast svokallaða „forystu“; þá erum við samstundis sek um glæpi sem siðmenntað og fágað menntafólk gerist aldrei sekt um, líkt og persónudýrkun og eitthvað sem kallast stigveldisstjórnun. „Guð minn góður, ég næ ekki andanum, segiði þernunni að koma með ilmsöltin strax!“

Ástæður tryllingsins hjá fólkinu efst í forréttindaturninum og þeim sem óþreytandi eru í prílinu til að komast þangað og ganga í eina sæng með auðvaldinu eru þessar:

Eflingar-félagar kunna ekki aðeins að telja og velja, þeir þekkja líka mátt samstöðunnar. Þeir vita einnig að þeir eru algjörlega ómissandi í allri verðmætaframleiðslu þjóðfélagsins. Þeir vita að ástæða þess að verkafólk fyrri alda öðlaðist á endanum, eftir að hafa fært stórkostlegar fórnir, þau mannréttindi að mega semja sjálf um laun fyrir unna vinnu, að geta lagt niður störf til að vinna að framgangi sinna mikilvægu krafna, er að vinna vinnuaflsins er grundvallaratriði allra grundvallaratriða kapítalískrar verðmætasköpunnar. Og að sú staðreynd fæðir af sér það sem kalla má sterka samningsstöðu. Og af þeirri vitneskju fæðist dirfskan, eldmóðurinn og baráttugleðin. Þetta hatar yfirstéttin meira en nokkuð annað og hefur alltaf gert.

Við munum ekki láta ofríki, einræðistilburði og and-lýðræðislega óra margmilljónakróna fólksins stoppa okkur. Það mun aldrei gerast. Þrátt fyrir að það sé erfitt að horfast í augu við klikkaða forherðinguna. Eflingar-fólk þekkir erfiðleika. Þeir hafa mótað okkur og viðhorf okkar til tilverunnar. Við vitum að ekkert kemur til okkar ókeypis eða án erfiðis. Ekki neitt. Og þessvegna munum við ekki gefast upp í baráttu okkar fyrir efnahagslegu réttlæti.

Sjáumst í baráttunni.

Áfram Efling, alla leið!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: