- Advertisement -

Ég var kallaður barnamorðingi, rasisti, fasisti

„En þegar gengið er að einhverjum ráðamanni og skvett á hann dufti, hvort sem það er glimmer eða annað, veit viðkomandi ekki hverju verið er að skvetta á hann. Það er ofbeldi.“

Guðmundur Ingi Kristinsson.

Alþingi „Við erum heppin að hafa þann rétt hér á Íslandi að mótmæla friðsamlega. Ég mótmælti hér friðsamlega með baráttusamtökunum Bót sem voru baráttusamtök gegn fátækt og félagslegu óréttlæti sem voru stofnuð eftir bankahrunið á sínum tíma. Ofbeldi í mótmælum á ekki að eiga sér stað. Það að ég hafi sagt frá því að tjaldbúðir sem voru hér við Austurvöll vikum eða jafnvel mánuðum saman, í boði Reykjavíkurborgar, væru fordæmisgefandi fyrir aðra til að geta tjaldað ef þeir vildu mótmæla varð til þess að ég var kallaður barnamorðingi, rasisti, fasisti og fleira sem er ekki einu sinni hafandi eftir, bara fyrir það eitt að benda á þetta. Og hvað segir það okkur þá um þá umræðu sem er í gangi í þjóðfélaginu í dag?“

Þetta sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins, rétt í þessu á Alþingi.

„Ég segi eins og Hera, sem ætlar að fara í Eurovision, að það sem hún hafi fengið yfir sig hafi verið svo skelfilegt að það sé ekki hafandi eftir; að það þurfi að faðma þetta fólk, að það sé eitthvað meira en lítið að þegar fólki líður svo illa að það þurfi að hrauna yfir náungann með alveg fáránlegum ásökunum. Barnamorðingi, fasisti, rasisti — það erum við ekki. En við erum með fólk sem býr í iðnaðarhúsnæði, hjólhýsum og heilsuspillandi húsnæði og því ber að mótmæla. En þegar gengið er að einhverjum ráðamanni og skvett á hann dufti, hvort sem það er glimmer eða annað, veit viðkomandi ekki hverju verið er að skvetta á hann. Það er ofbeldi. Að brjóta rúður í húsi er ofbeldi. Að reyna að skemma í nafni mótmæla er ofbeldi og það eigum við ekki að líða. Við erum frjáls til að mótmæla en gerum það friðsamlega.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: