- Advertisement -

Ég vissi ekki að Logi Bergmann væri svona vitlaus!

Það er því siðferðilega rétt að gera samanburð milli landa enda sýna ofangreind launa og kostnaðarhlutföll að ekki er allt með felldu á Íslandi.

Jóhann Þorvarðarsson skrifar:

Logi Bergmann talar niður til Íslendinga sem dvelja langdvölum á Spáni, sumir vegna framfærsluerfiðleika, í nýlegri grein í Mogganum. Logi spyr hvort það sé siðlaust að gera verðsamanburð milli Íslands og láglaunalanda. Í samhenginu þá minnist Logi á arðrán eins kjánalegt og það nú hljómar. Við skulum hjálpa Loga að svara og lækka aðeins rostann í honum, koma honum niður á jörðina.

Skoðum tvö grunnatriði í lífi allra fjölskyldna og byrjum á aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Jóhann L. Helgason húsasmíðameistari segir frá nýlegri heimsókn sinni á spænskt háskólasjúkrahús og er afar sáttur. Á 50 mínútum fór hann í gegnum móttöku, viðtal, tvær myndatökur, greiningu og útskrift. Allir þekkja hina rómuðu biðlista á Íslandi. Hér er mikill munur á lífsskilyrðum sem Loga finnst ekki skipta máli. Það er nú þannig að biðraðirnar draga úr hagvexti og gera reksturinn dýrari. Það heldur sköttum uppi sem fjármálaráðherra skilur ekki!

Skoðum svo húsnæðiskostnað sem er að sliga stóran hluta þjóðarinnar. Íslendingar hafa gert því góð skil hvað húsnæðiskostnaðurinn er hagfelldur suður frá. Íbúð með tveimur svefnherbergjum og tveimur baðherbergjum á Íslendingaslóðum er á bilinu 76-103 þúsund krónur. Ég ætla að bæta við og segja aðeins frá Torínó á Ítalíu þar sem Christian Ronaldo býr og spilar nú um stundir.

Ég þekki aðila sem leigði góða 40 fermetra íbúð í miðri miðborginni á 580 evrur eða 80.000 krónur. Í miðborg Reykjavíkur er þá er verðið ekki undir 200.000 krónur. Viðkomandi aðili gat lifað af sumarlaunum sínum frá september og fram í mars, allt innifalið.

Svo þekki ég Ítala sem er ný útskrifaður verkfræðingur. Eftir skatta þá er hann með 220.000 krónur á mánuði. Hann borgar síðan 28.000 krónur fyrir 50 fermetra íbúð í góðu ástandi ekki langt frá Tórínó. Svo er matur mjög ódýr á Ítalíu.

Hvernig var það var ekki Efling með auglýsingu um daginn sem sagði þá sorgarsögu af ræstingakonu sem ætti 20.000 krónur eftir af launum sínum þegar búið var að borga húsaleigu.

Það er því siðferðilega rétt að gera samanburð milli landa enda sýna ofangreind launa og kostnaðarhlutföll að ekki er allt með felldu á Íslandi.

Síðan er ekkert arðrán fólgið í því að fara til landa þar sem lífið er léttara. Fólk er einfaldlega að bjarga sér til betra lífs og á ekki að þurfa að hafa samviskubit yfir því þó Logi geri því skóna með lúmskulegum hætti. Logi er augljóslega búinn að gleyma eigin uppruna úr Réttarholtinu í Reykjavík. Hann á að muna að algengt var að íbúar hverfisins fóru langar vegalengdir á árum áður upp til sveita landsins og byrgðu sig upp af kjöti og sláturmat fyrir veturinn. Ekki var það talið arðrán að fólk reyndi að bjarga sér! Það er undarlegt að Logi tali um þetta sem arðrán og þá frá hverjum er verið að stela? Kannski kaupmanninum sem ekki vill deila hagnum í rekstrinum með sanngjörnum hætti og er með of hátt söluverð?

Hvernig væri að Funinn komi nú niður úr fílabeinsturninum og kynna sér aðstæður hjá venjulegu fólki. Vonandi er það ekki ofraun að horfa framan í samborgarana!