- Advertisement -

Eru á harðahlaupum í áttinni frá mannúð

„Það að hæstvirtur ráðherra noti tilefnið til þess að grafa undan stöðu flóttafólks er skammarlegt.“

Andrés Ingi Jónsson.

Alþingi „Í gær rauf utanríkisráðherra sögulegt þagnarbindindi þegar hann veitti fyrsta fjölmiðlaviðtal ársins. Tilefnið var hneykslan ráðherrans á mótmælum sem eiga sér stað fyrir utan Alþingi þar sem fólk frá Palestínu er að kalla eftir viðbrögðum og aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Í viðtalinu í Silfrinu hafnaði hann því að hann væri að slá nýjan tón í útlendingaandúð enda má það svo sem til sanns vegar færa, ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur stigið þau skref mörg á kjörtímabilinu,“ sagði Andrés Jónsson Pírati á þingi fyrr í dag.

„Ríkisstjórnin hefur þrýst í gegn lögum sem draga úr réttindum fólks á flótta, hvort sem það heita útlendingalög eða lög um landamæri, dómsmálaráðherra breytti framkvæmd laganna fram hjá löggjafanum, allt til að draga úr réttindum fólks á flótta, og fleiri frumvörp eru á leiðinni til að gera stöðuna enn verri,“ sagði Andrés og gaf í frekar en hitt.

„Stjórnarflokkarnir eru á harðahlaupum í áttinni frá mannúð. Það breytir því hins vegar ekki að fólkið sem mótmælir utan við Alþingishúsið er ekki að kalla eftir breyttri stefnu heldur einfaldlega því að ríkisstjórnin framkvæmi það sem hún segist hafa ákveðið að gera. Þessu hefði utanríkisráðherra getað áttað sig á ef hann hefði talað við mótmælendur eða lesið eitt af þeim fjölmörgu bréfum sem okkur þingmönnum hafa borist.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Undir sprengjuregni Ísraelshers…

Mótmælin snúast nefnilega bara um það að utanríkisráðherra framkvæmi ákvarðanir sem ríkisstjórnin er búin að taka. Hér fyrir utan þingið er fólk sem hefur fengið samþykkta umsókn um alþjóðlega vernd. Ættingjar þeirra eru hins vegar fastir í Gaza. Undir sprengjuregni Ísraelshers er búið að samþykkja fjölskyldusameiningu þeirra einstaklinga. Það eina sem vantar er að hæstvirtur utanríkisráðherra komi nöfnum þeirra ættingja á landamærastöð milli Gaza og Egyptalands. Utanríkisráðherra þarf að senda einn tölvupóst til stjórnvalda erlendis og þarf að sjá til þess að einhver embættismaður taki á móti fólkinu sem íslenska ríkisstjórnin segist ætla að sameina ættingjum sínum hér á landi. Það að hæstvirtur ráðherra noti tilefnið til þess að grafa undan stöðu flóttafólks er skammarlegt og það að ríkisstjórnin sé ekki löngu búin að bregðast við mótmælunum með því að bjarga fólki í lífshættu er hneykslanlegt.“

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: