- Advertisement -

Galin hugmyndað styrkja hið sjúka fjölmiðlaumhverfi

Hugmyndin að styrkja þetta sjúka fjölmiðlaumhverfi er galin, álíka skynsöm endurlífgunaraðgerð og að örva maðkana sem lagst hafa á líkið.

Gunnar Smári skrifar:

Það væri gaman ef einhver nennti að reikna hverjar hefðu verið áskriftartekjur fjölmiðla um aldamótin og áratuginn þar á undan; áskrift að dagblöðum, tímaritum og sjónvarpi. Hvað ætli sé mikið eftir af því? Þegar áskriftin minnkaði leitaði auglýsingaféð annað; augljósasta dæmið er ruslpósturinn, sem í raun er ekki annað að dagblaðaauglýsingar sem þurfa meiri útbreiðslu en dagblöðin gátu skaffað þegar áskriftin hnignaði. Með netinu dreifðust auglýsingatekjurnar enn víðar og nú er stærstu hlutinn af því fé farinn til útlanda, meira en þriðjungur af öllum auglýsingatekjum.

Ef við tökum Moggann sem dæmi þá byggðist hann upp eins og aðrir sigurvegarar á dagblaðamarkaði (sem er svona winner takes it all-markaður; auglýsingar leita til blaðsins með mestu útbreiðsluna, sem gefur því færi á að auka þjónustu við lesendur og auka enn við útbreiðsluna og þar með auglýsingar og svo heldur spírallinn áfram upp á við endalaust) þá komu tekjurnar á velmektarárum hans um 35% frá áskrift og 65% frá auglýsingum. Áskriftin hefur síðan fallið um 2/3 og auglýsingarnar um 2/3, fyrst vegna samkeppni innanlands og síðan vegna samkeppni frá útlöndum. Með góðri stöðu mbl.is hefur Mogganum tekist að ná til baka um 1/5 af auglýsingatekjunum. Blaðið er þá að keyra í dag á um 46% af tekjum blaðsins fyrir aldamót, en þarf að reka mbl.is líka. Dæmið gengur ekki upp, Mogginn er dregin áfram af styrkjum auðkýfinga sem vilja nota blaðið í áróðursskyni. Og eykur svo enn á vandræði sín með því að reyna að byggja upp útvarpsstöð frá grunni í sama formi og útvarpsstöðvar voru byggðar upp fyrir 1990!

Fjölmiðlaumhverfið þar sem einkafyrirtæki veittu almannaþjónustu er farið.

Sama á við um Stöð 2, sem aldrei náði að tryggja sér fjárhagslegt sjálfstæði. Fréttablaðið gat svindlað á winner-takes-it-all-reglunni með því að bera blaðið í öll hús, en aðeins um tíma. Það var ekki nóg að leggja alla innlenda samkeppni, samkeppnin að utan grefur nú undan rekstrarmöguleikum blaðsins. Bylgjan ber sig sem deild en gæti líklega ekki staðið ein, sá rekstur yrði þungur. DV hefur leyst upp í einhverja vitleysu (hvað fékk Björgólfur fyrir 700 milljónirnar sínar?) og það á við um flest annað sem tilheyrði fjölmiðlaumhverfinu um aldamótin.

Ríkisútvarpið styrkist hlutfallslega eftir því sem aðrir miðlar veikjast, er mun meira ráðandi á auglýsingamarkaði nú en um aldamótin; hefur hvorki tapað áskrift eða auglýsingatekjum að ráði.

Fjölmiðlaumhverfið þar sem einkafyrirtæki veittu almannaþjónustu er farið. Og kemur ekki til baka. Í stað fólks sem átti og rak fjölmiðla sem sómasamlegan business eru komnir eigendur sem hafa það eitt að markmiði að stjórna umræðunni. Fyrri eigendur höfðu þau markmið ef til vill líka, en megin markmiðið var að reka miðlana yfir núllinu. Og það var ekki gert nema að þjónusta fólk, sem setti hömlur á hversu mikið eigendur gátu misnota miðlana. Og innan þessa umhverfis varð til sjálfstæð blaðamennska, sem gat varið sig gagnvart eigendunum. Ritstjórnirnar bjuggu til vöru sem seldist og sem voru grunnurinn fyrir auglýsingasölu. Þær voru því fjárhagslega sjálfstæðar. Öfugt við ritstjórnir í dag sem eru háðar ölmusu þeirra sem vilja leggja fé í þá miðla sem þjóna sér, kaupa sér umfjöllun.

Mogginn þjónar aðeins útgerðinni og allra stærstu eigendum allra stærstu fyrirtækjanna.

Hugmyndin að styrkja þetta sjúka fjölmiðlaumhverfi er galin, álíka skynsöm endurlífgunaraðgerð og að örva maðkana sem lagst hafa á líkið.
Tímabil markaðsdrifinna fjölmiðla í almannaþjónustu var stutt á Íslandi, ætli Mogginn hafi ekki verið orðinn stöndugur rekstur um 1970, DV var með ágæta afkomu upp úr 1980, Bylgjan og Stöð2 urðu til á níunda áratugnum, Fréttablaðið 2001. Þetta eru kannski 35 ár, 40 ár max. Fyrir þennan tíma var blaðamennska hugsjónastarf og fjölmiðlar byggðir á breiðum hagsmunum; stjórnmálaflokkarnir voru þá breiðari fjöldahreyfingar en í dag og Morgunblaðið þjónaði almennari hagsmunum fyrirtækjaeigenda en í dag, þegar blaðið þjónar aðeins útgerðinni og allra stærstu eigendum allra stærstu fyrirtækjanna.

Við sjáum nú sprota af nýju fjölmiðlaumhverfi verða til. Kjarninn og tilheyrandi byggir á vilja eigenda sinna til að halda úti umfjöllun á mörkum viðskipta og stjórnmála sem endurspeglar hugmyndir þeirra um frjálslynda stefnu í stjórnmálum og markaðslausnir í efnahagsmálum, svona skárri útgáfuna af Viðreisn/Samfylkingunni. Ritstjórnin byggir á gildum blaðamennsku frá blómatíma hennar. Stundin er samvinnufélag blaðamanna sem vilja fá að stunda blaðamennsku í friði fyrir ríka karlinum. Útvarp Saga er eins og flokksblað flokksleysingja á ysta hægrinu. Gamlir blaðamenn halda úti sínum eigin netmiðlum (Miðjan, Viljinn) eins og Jón Ólafsson eða Einar Benediktsson bjuggu til blöð í kringum sjálfan sig fyrir meira en hundrað árum.

Ef ríkið vill styrkja blaðamennsku getur það styrkt blaðamenn.

Innan í þessu nýja umhverfi er margt efnilegt en líka margt skrítið og ekki eins gott. Eins og var í gamla umhverfinu, þar var náttúrlega óendanlega mikið af drasli. Þannig eru verk okkar mannanna, voða mikið drasl en svo eitt og eitt gott innan um sem gerir allt vesenið þess virði.
En hvort sem okkur líkar betur eða verr erum við að færast aftur í fjölmiðlaumhverfið eins og það var fyrir hina stuttu gullöld, þegar ritstjórnir gátu staðið undir sér á markaði. Og stuðningur ríkisins við fjölmiðla á að miðast við það. Það er fráleit notkun á almannafé að styrkja auðfólk til að spilla upplýsingum með tökum sínum á fjölmiðlum, galið af ríkisstjórn sem segist vera að vinna gegn upplýsingaóreiðu. Ef ríkið vill styrkja blaðamennsku getur það styrkt blaðamenn, sem geta í dag unnið óháðir dreifileiðum. Ritstjórnir eru auðvitað menningarverðmæti, en það má leysa með hópstyrkjum eins og til leikhópa, ef hópur blaðamanna vill byggja upp sýningu eða stofna hljómsveit (í óeiginlegri merkingu), búa til samvinnufélag utan um blaðamennsku sína.

Þetta er það sem ríkið getur gert. Verkalýðshreyfingin þarf síðan að byggja upp fjölmiðla sem henta launafólki. Það getur ekki lifað og háð stéttabaráttu sína innan fjölmiðla auðkýfinga. Það vissu þau sem byggðu upp Alþýðusambandið fyrir meira en öld, fyrsta verk þeirra var að stofna Alþýðublaðið. Og þetta hefur Verkamannaflokkurinn breski rekið sig á, Bernie Sanders og fleiri; það er ekki hægt að eiga samtal við almenning um betra samfélag í gegnum auðvaldspressuna. Það er bara ekki hægt.

Það er ekki árið 1990.

Stjórnmálaflokkarnir ættu svo að íhuga að nota eitthvað af því ógnarfé sem þeir hafa náð út úr ríkis- og sveitarsjóðum til að byggja upp fjölmiðlun sem viðheldur tengslum forystu flokkanna við almenning. Fjölmiðlun er besta tækið til slíkra hluta. Ef þið efist skulið þið fara í huganum yfir hrörnun flokkanna frá því að flokksblöðin dóu; fyrst dóu blöðin og svo flokkarnir. Með því að treysta á að auðmenn sem tengjast flokkunum haldi úti fjölmiðlun vilhallri flokkunum (Fréttablaðið og Viðreisn, Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn, Kjarninn og Samfylkingin) eru flokkarnir að færa auðfólkinu innan eigin raða margföld völd og áhrif umfram aðra flokksfélaga.

Þannig er nú það. Velkomin á nítjándu öldin, kannski fyrri helming þeirra tuttugustu. Við erum þar. Það er ekki árið 1990. Sem er ágætt.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: