- Advertisement -

„Guð minn góður“

„…höfum í of langan tíma verið alltaf með plástur á húsnæðismarkaðinn okkar og húsnæðiskerfið okkar og ég vil setja fyrirvara við það yfir höfuð, þetta Bríetarfyrirkomulag.“

Bryndís Haraldsdóttir.

Alþingi „Fyrst langar mig að segja að ég fékk tækifæri til að hitta Grindvíkinga á mánudaginn og heyra í fólki. Þar ræddi ég sérstaklega við tvær konur, mæður, kannski í svipaðri stöðu og ég, að reyna að sinna vinnu og börnum og öllu því sem fylgir því að reka fjölskyldu. Og guð minn góður, hvað er mikið lagt á þetta fólk, bara það að reyna að halda utan um fjölskylduna sína í því ástandi sem þarna er,“ sagði Bryndís Haraldsdóttir Sjálfstæðisflokki á Alþingi.

„Þarna var verið að lýsa fyrir mér hvernig verið væri að skutla börnum á milli skólahverfa í Reykjavík, á íþróttaæfingar hér og þar og allt þetta. Þetta er bara púsluspil sem venjuleg fjölskylda, sem þó býr í sínu örugga húsnæði, getur aldrei látið ganga til lengdar. Það fær mig til að hugsa um það sem ég hef nokkrum sinnum rætt í ræðustól þegar við hugsum um velferðarsamfélagið okkar og okkar kvarða, að við sáum það eftir hrun hve heilsu kvenna hrakaði mikið, þ.e. heilsu kvenna sem bjuggu við góð lífsgæði hrakaði. Það er áhugavert að skoða þetta í kynjasamhenginu en margir vilja meina það að þessar áhyggjur sem lögðust þarna á fjölskyldur eftir hrun hafi valdið þessu.“

„Mig langar að segja að ég held að við höfum í of langan tíma verið alltaf með plástur á húsnæðismarkaðinn okkar og húsnæðiskerfið okkar og ég vil setja fyrirvara við það yfir höfuð, þetta Bríetarfyrirkomulag. Ég myndi því vilja miklu dýpri og meiri umræðu áður en við færum í það að stækka og auka það til allra muna. En þar sem ég sit ekki enn þá í fjárlaganefnd mun ég ekki hafa tækifæri til að koma þeim sjónarmiðum á framfæri við umfjöllun þessa. En ég efast ekki um það, virðulegur forseti, að við þurfum að taka dýpri og meiri umræðu um það hvernig við ætlum að bregðast við þeim miklu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir einmitt til að þær leiði ekki til annarra vandamála og verkefna síðar. Það er auðvitað húsnæðismarkaðurinn okkar sem hefur verið mikil áskorun og við höfum aldrei — aldrei — í íslensku samfélagi náð einhvers konar jafnvægi á þann markað. Ég vil meina að það kunni að einhverju leyti að vera stjórnmálunum að kenna vegna þess að við erum of mikið alltaf að grípa til aðgerða án þess að sjá hvað hinar aðgerðirnar skila raunverulega. Ég vil bara að við munum það að grunnvandinn á húsnæðismarkaðinum okkar er framboðsvandi. Ef framboðið væri nægjanlegt þá væri verðið ekki svo hátt. Það er verkefnið sem við þurfum að vinna að og það gerum við í samstarfi við sveitarfélögin,“ sagði Bryndís Haraldsdóttir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: