- Advertisement -

Hafa leyfi til að svindla

„Það eru margar sögur og mörg dæmi um það að ísprósenta hafi rokið upp úr öllu valdi við endurvigtun sjávarafla. Það þarf að stoppa sem allra fyrst.“

Eyjólfur Ármannsson.

Alþingi „Flokkur fólksins hefur lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, um samræmda vigtun sjávarafla. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar til að tryggja að vigtun sjávarafla verði framkvæmd af óháðum aðilum á sem nákvæmastan hátt. Lagt er til að heimild Fiskistofu til að veita leyfi til endurvigtunar og heimavigtunar verði felld brott og allar nauðsynlegar undanþágur frá meginreglunni um að allur afli skuli veginn á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun. Þetta eru grundvallaratriði sem þarf að ræða þegar kemur að lögum um sjávarútveg,“ sagði Eyjólfur Ármannsson, Flokki fólksins, á Alþingi í gær.

„Lagt er til í frumvarpinu að myndavélaeftirlit verði með vigtun afla en ör tækniþróun hefur verið undanfarin ár sem leiðir til þess að hægt er að stunda þannig eftirlit án mikillar fyrirhafnar. Það skiptir gríðarlega miklu máli að rétt sé staðið að vigtun sjávarafla. Vigtun sjávarafla skiptir sköpum þegar tryggja á að skipverjar fái sanngjarnt kaup og að réttar upplýsingar um veiðar skili sér til stjórnvalda sem sinna rannsóknum og eftirliti með fiskstofnum þjóðarinnar. Í dag eru 84 aðilar með svokallað endurvigtunarleyfi. 17 aðilar fá leyfi til heimavigtunar,“ sagði Eyjólfur.

„Ein algengasta aðferð við undanskot afla er þegar íshlutfall er skráð hærra en það er í raun. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu kom m.a. fram að dæmi væru um að verulegt misræmi væri milli íshlutfalls í afla þegar eftirlitsmenn Fiskistofu hefðu sinnt eftirliti með hlutfalli íss og borið saman við vegið meðalhlutfall. Það er grundvallaratriði að hafnarvog stjórni varðandi magn þess sjávarafla sem kemur að landi. Það eru margar sögur og mörg dæmi um það að ísprósenta hafi rokið upp úr öllu valdi við endurvigtun sjávarafla. Það þarf að stoppa sem allra fyrst. Það minnkar algjörlega tiltrú á kerfinu að svo sé. Þess vegna á hafnarvog að ráða þegar kemur að vigtun sjávarafla en ekki endurvigtun í heimahúsi. Hún getur vissulega komið til en hún á ekki að hafa áhrif á það aflamagn sem kemur að landi hverju sinni.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: