- Advertisement -

Hótanir Bjarna hafa ollið óbætanlegum skaða

Sigríður Jónsdóttir skrifaði:

Það getur verið að ráðherrann hafi komið sínum lífeyrissparnaði á þurrt hjá Falson og félögum, hann þarf þá sennilega ekki að taka á sig þennan skell persónulega, en hann ætlar lífeyrisþegunum að gera það.

Ég, eins og fleiri, hef verið að fylgjast með fordæmalausri framgöngu fjármálaráðherrans okkar í fjölmiðlum í síðustu viku, og hef, eins og margir, skelfilegar áhyggjur af afleiðingum og áhrifum þessarar óábyrgu framgöngu á efnahagslífið. Það er í meira lagi alvarlegt þegar ráðherra lýsir fyrirvaralaust yfir greiðslufalli á bréfum ríkissjóðs. Sem fyrrverandi starfsmaður Kauphallarinnar skil ég ekki í öðru en að öll viðskipti með þessi bréf síðustu mánuði verði skoðuð af FME, a.m.k. í aðdraganda þessara ummæla. Það eru gríðarlegir fjármunir sem liggja þarna undir.

Ég sat í sjö ár í stjórn Styrktarsjóðs hjartveikra barna og sá þar um fjárfestingar og útgreiðslu styrkja til barna með alvarlega hjartagalla. HFF bréfin eru undirstaða reksturs Styrktarsjóðsins. Fjárfesting í þeim tryggði stöðugleikann sem skapaði síðar möguleikann á vexti sjóðsins eftir hrun. Vaxtagreiðslur og afborganir af þeim gera sjóðnum kleift að greiða styrki sjóðsins, gera sjóðnum kleift að áætla einingarupphæð styrkja og standa undir væntingum um að sjóðurinn greiði styrki og uppfylli þannig hlutverk sitt. Ef verður af hótunum fjármálaráðherra er forsendum kippt undan sjóðnum í því formi sem hann hefur verið rekinn. Það sem verra er þá er verið að beina fjármagni úr farvegi öryggis ríkistryggðra verðbréfa yfir í áhættusæknari fjárfestingar, sem er með öllu óásættanlegt fyrir sjóð eins og þennan sem verður að geta reitt sig á fyrirsjáanleika.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ummæli ráðherrans sem svekkir sig á þessari gagnýni og kallar gífuryrði á ekki við nokkur rök að styðjast.

Þetta á svo sem við um allt lífeyriskerfi landsmanna. Í hverju eiga lífeysissjóðirnir að fjárfesta hérlendis? Eru þeir ekki nú þegar í erfiðleikum með að finna fjármagni farveg? Á lífeyrissparnaðurinn okkar að vera í jójói áhættumeiri markaða? Við vitum mæta vel hvaða áhrif faraldur og stríð hefur haft á virði hlutabréfa. Og nú bætist við verðfall HFF bréfanna, óvissa og skert traust og trúverðugleiki ríkissjóðs sem útgefanda skuldabréfa. Og erum við alveg að verða búin að gleyma hruninu og kerfislægri áhættu?

Ummæli ráðherrans sem svekkir sig á þessari gagnýni og kallar gífuryrði á ekki við nokkur rök að styðjast. Gagnrýnendurnir, eins og ég, eru ekki beinir hagsmunaaðilar og eigendur peninganna sem um ræðir, heldur vörslufólkið sem á að standa vörð um hagsmuni annarra, m.a. hjartveikra barna og lífeyrisþega. Það getur verið að ráðherrann hafi komið sínum lífeyrissparnaði á þurrt hjá Falson og félögum, hann þarf þá sennilega ekki að taka á sig þennan skell persónulega, en hann ætlar lífeyrisþegunum að gera það. Það er persónulegt og það er vandamál að senda reikninginn vegna hagstjórnarlegra mistaka fyrri ára á afmarkaða hópa samfélagsins.

Hótanir ráðherrans hafa þær afleiðingar að traust til ríkissjóðs sem ábyrgs útgefanda bréfa, sem hingað til hafa verið talin áhættulaus en eru ekki lengur, hefur hlotið óbætanlegan skaða. Ég vil bera þetta útspil saman við efnahagsleg afglöp breskra stjórnvalda á seinustu vikum. Þetta er það mikil skelfing. Hvernig ætlar ríkið að fjármagna sig til framtíðar með þetta hneyksli á bakinu, og með hvaða kostnaði? Og hver mun treysta ríkissjóði?

Ég er bara með sorg í hjarta og hugsa til styrkþega sjóðsins sem ég gætti.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: