- Advertisement -

Jörðuðu samgönguáætlunina í kyrrþey

„Ég vil gera athugasemdir við það að til þessa fundar var boðað á föstudagskvöldi með hálftíma fyrirvara.“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

Alþingi „Ég verð að beina orðum mínum sérstaklega til forseta þings í kjölfarið á uppákomu sem varð í umhverfis- og samgöngunefnd á föstudagskvöld. Á föstudagskvöld klukkan hálf sjö er haldinn fundur í umhverfisnefnd þar sem meiri hlutinn tilkynnir minni hlutanum það að stærsta verkefni sem nefndin hefur haft til meðferðar í allan vetur verði kastað í ruslið,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir á Alþingi fyrr í dag.

Fjörugar umræður urðu í framhaldinu. Bjarni Jónsson nefndarformaður boðaði til fundar á föstudagskvöldið, með hálftíma fyrirvara. Hann náði ekki til allra þingmanna og því var þunnskipað á fundinum þar sem samgönguáætlunin var sett í salt eða jafnvel jörðuð í heili lagi.

„Það verði ekki eitt af þeim málum sem verði afgreidd í vor og ég held að ástæðurnar liggi öllum ljósar fyrir; ágreiningur í meiri hlutanum einu sinni sem oftar. Ég vil gera athugasemdir við það að til þessa fundar var boðað á föstudagskvöldi með hálftíma fyrirvara. Formaður nefndarinnar hringdi sjálfur í nefndarmenn og þeir sem ekki náðu símanum misstu einfaldlega af fundi. Þetta er eitt stærsta mál Alþingis í vetur og þessi vinnubrögð eru svo ævintýralega léleg að ég óska eftir því að fá viðbrögð forseta þingsins um það hvort það sé boðlegt af formanni nefndar að haga sér með þessum hætti,“ sagði Þorbjörg Sigríður.

Bæði Loga Einarssyni og Sigmari Guðmundssyni þótti Birgir Ármannsson taka gagnrýninni af léttúð.

„Fundarboðun er rosalega alvarlegt mál af því að meiri hluti sem getur boðað fund getur misnotað það vald til að afgreiða mál í rauninni fram hjá mótmælum og ýmsu svoleiðis þannig að það skiptir rosalega miklu máli að reglurnar í kringum fundarboðun séu skýrar,“ sagði Björn Leví Gunnarsson.

„Hér er rætt um fundarboð sem fór út með tölvupósti og einnig var reynt að hafa samband við nefndarmenn símleiðis, en fór líka í tölvupósti,“ sagði nefndarformaðurinn Bjarni Jónsson.

Þorbjörg Sigrípur tók aftur til máls:

„Í kjölfar orða formanns nefndarinnar er kannski ágætt að halda því til haga að ég sit þar sem varaformaður. Það var enginn tölvupóstur sendur. Það var hringt í nefndarmenn með hálftíma fyrirvara.“ 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: