- Advertisement -

Kannski er mér ætlað að fylla stærri skó í líf­inu?

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir tilkynnti:

„Þið stöppuðu í mig stál­inu þegar ég var sorg­mædd og einmana og þið kennduð mér líka að varðveita eld­inn, elska heitt og að ekk­ert væri ómögu­legt. Það er mikið í húfi, því það skipt­ir máli hver gegn­ir embætti for­seta Íslands.

For­seti er í for­svari fyr­ir þjóðina á ög­ur­stund­um, þegar hún mæt­ir sem full­trúi henn­ar til að sýna – að okk­ur má aldrei standa á sama. For­seti þarf því að vera víðsýnn og for­dóma­laus og standa með öllu fólki sem hér býr – í blíðu og stríðu.

Þess­ar for­seta­kosn­ing­ar sýna að við verðum að eiga meira en sam­tal um stjórn­ar­skrá okk­ar. Breyt­ing­ar á henni hafa nú verið til umræðu í heil­an manns­ald­ur. Lang­lund­ar­geð okk­ar er sann­ar­lega á heims­mæli­kv­arða.

Þjóðin á heimt­ingu að því að á hana sé hlustað. Það er þings­ins að búa svo um hnút­ana að þar sé ávallt verið að vinna að sam­eig­in­leg­um hags­mun­um fólks­ins í land­inu svo for­seti þurfi helst aldrei að sker­ast í leik­inn.

Á Íslandi býr framúrsk­ar­andi fólk sem við get­um verið stolt af. En við þurf­um að efla fleiri til dáða. Við eig­um vanda valið á vin­um og mynda tengsl sem eru okk­ur til fram­drátt­ar sem þjóð.

Á Íslandi býr líka fólk sem aldrei hef­ur fengið að njóta sín. Það er sam­eig­in­legt verk­efni að bæta þeirra stöðu svo all­ir íbú­ar lands­ins geti dafnað og blómstrað.

Ég lofa, verði ég for­seti, að fylgj­ast vel með og sinna þessu stóra verk­efni eft­ir bestu getu, ekki einu um­fram annað, og inna embættis­verk­in af hendi af áhuga, sam­visku­semi og alúð.

Fyr­ir mér er það brýnt að við sam­ein­umst nú um að byggja upp rétt­látt og heil­brigt sam­fé­lag til framtíðar, fyr­ir okk­ur sjálf – en líka fyr­ir öll þau börn sem hér munu fæðast eft­ir okk­ar daga. Með því þökk­um við því fólki sem byggði þetta land með sínu viti og striti. Forfeðrum og for­mæðrum sem gerðu okk­ur kleift að búa í friðsælu og fal­legu landi.

Kannski er mér ætlað að fylla stærri skó í líf­inu? Kannski ekki? Hvernig sem fer, þá verð ég söm eft­ir.

Ég mun nú láta á það reyna, hvort þið teljið mig þess verða að gegna embætti for­seta Íslands. Með þátt­töku í for­seta­kosn­ing­um vel­ur fólk sinn for­seta í trúnaði við sína sam­visku.

Ég hef opnað fyr­ir und­ir­skriftal­ista meðmæl­enda á is­land.is og bið þau sem vilja styðja mig að sýna það í verki svo kjörgeng geti tal­ist, því safna þarf at­kvæðum í öll­um lands­fjórðung­um.
Það er stutt til kosn­inga og ég bið ykk­ur, ef þið hafið trú á mér, að slást í hóp­inn og biðla til annarra að styðja mig sömu­leiðis.

Nú er vor í lofti, leyf­um okk­ur að vera bjart­sýn!

Verði mér treyst til að taka þetta embætti að mér heiti ég heil­ind­um við ykk­ur og það sem okk­ur ætti að vera kær­ast: Landið okk­ar, Ísland.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: