- Advertisement -

Komast ekki af án innflytjenda

„Innflytjendur eru mikilvægir hér í sveitarfélaginu. Þeir eru uppistaða vinnuafls í mörgum fyrirtækjum hér, til dæmis í fiskvinnslu sem er burðarásinn í atvinnulífi Snæfellsbæjar. Við komumst ekki af án þessa fólks, sem margt hvert hefur fest hér rætur og stofnað sínar fjölskyldur,“ segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ í Mogganum í dag.

„Í flestum bekkjum grunnskólans okkar eru börn sem eiga annað föðurland en Ísland, stundum er það allt að helmingur nemendanna. Samfélagið hér á Nesinu hefur þó ekki breyst í neinum meginatriðum. Við þyrftum reyndar að gera meira til þess að virkja þá íbúa sveitarfélagsins sem eru af erlendu bergi brotnir. Við þyrftum að fá þá til þess að blanda sér í meira mæli í leik og starf samfélagsins og hvetja alla til að taka þátt í því fjölbreytta og mikilvæga félagsstarfi sem hér er, eins og til dæmis íþróttastarfi, starfi björgunarsveita, kórum og klúbbastarfi. Allt þetta skiptir máli fyrir heildina og virk þátttaka allra er nauðsynleg. Málefni fólks frá öðrum löndum eru annars mjög vel þekkt hér um slóðir. Hingað kom til dæmis fyrr á árum mikill fjöldi Færeyinga til starfa við sjávarútveginn og þannig skapaðist skemmtileg menning í samfélaginu og hefðir sem við búum enn að og skipta sannarlega miklu máli fyrir heildina alla,“ segir Kristinn.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: