- Advertisement -

Landeigendur „eigna sér“ vindinn

Enginn á að geta hirt arðinn af þessum öflum nema hann geti borið og þurfi að bera tjónið af náttúruhamförunum sem af þeim leiða.

Ragnar Önundarson skrifar:

Náttúruöflin, stundum nefnd „elementin“, eldur, vatn, vindur og jörð, eru þess eðlis að þau valda stundum ófyrirsjáanlegu, óviðráðanlegu og ótryggjanlegu tjóni, sem aðeins sameiginlegur sjóður landsmanna getur tekist á við. Viðlagasjóður og ofanflóðasjóður eru deildir í ríkissjóði, sem jafnar þessi tjón út að einhverju leyti. Enginn á að geta hirt arðinn af þessum öflum nema hann geti borið og þurfi að bera tjónið af náttúruhamförunum sem af þeim leiða. Eldsumbrot, flóð, fárviðri, skriðuföll og jarðskjálftar eru af þessu tagi. Athyglisvert er að landeigendur virðast nú „eigna sér“ vindinn sem þýtur yfir landið. Áform um tugi vindmyllugarða sýna þetta. Bölvað rokið er orðið auðlind sem menn þykjast geta hirt arðinn af án þess að bera tjónið, þegar svo ber undir. Hið opinbera sefur á verðinum og virðist ætla að úthluta fordæmisgefandi leyfum í andvaraleysi sínu. Leiðin út úr þessu er að leggja ríflegt „hamfaragjald“ á allt land, sem landeigendur geti losnað undan með ótvíræðu afsali allra nýtingarréttinda þessara náttúruafla. Til upprifjunar er hér ársgömul frétt mbl. sem sýnir að ESB setur okkur almennar reglur, sem það sníður að sínum þörfum, en eiga ekki við okkar aðstæður. Þessu er samt þröngvað upp á okkur í nafni hins sameiginlega risamarkaðar, sem okkar örsmái raforkumarkaður tengist þó ekki !

Árið 2016 barst íslenskum stjórnvöldum tilkynning frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, um að þeim bæri að setja lög sem krefjast þess að greitt sé markaðsverð fyrir nýtingarrétt á náttúruauðlinda í almannaeigu með það fyrir augum að framleiða rafmagn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hver fer nú aftur með löggjafarvaldið hér á landi ? Jæja, hér kemur fréttin:

„EES-reglur kalla á útboð nýtingarréttar

Nýtt nýtingarform vatnsfalla í eigu ríkis og sveitarfélaga til raforkuframleiðslu getur haft í för með sér að þar til gerðir nýtingarsamningar fari í útboð þegar samningstíma lýkur. Þetta staðfestir Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri. Hafa slíkir samningar þegar verið gerðir við einkarekin félög, en samningarnir munu í framtíðinni einnig vera gerðir um nýtingarrétt opinberra raforkufélaga.

Árið 2016 barst íslenskum stjórnvöldum tilkynning frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, um að þeim bæri að setja lög sem krefjast þess að greitt sé markaðsverð fyrir nýtingarrétt á náttúruauðlinda í almannaeigu með það fyrir augum að framleiða rafmagn. Var jafnframt kveðið á um að allir gildandi samningar yrðu endurskoðaðir þannig að það sem eftir væri af samningstíma yrðu raforkufyrirtæki að greiða fyrir nýtingarréttinn. Sama ár var skipaður starfshópur fjögurra ráðuneyta til þess að bregðast við fyrirmælum ESA og starfar hann enn.

Útboð að skyldu

Reglur Evrópusambandsins um nýtingarrétt voru til þess gerðar að tryggja að sanngjarnt verð fengist fyrir nýtingu náttúruauðlindanna og var slíkt nýtingarsamningsform tekið upp innan sambandsins fyrir nokkru. Þegar nýtingarsamningarnir runnu sitt skeið varð þó deila milli fleiri aðildarríkja og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um hvernig bæri að endurnýja umrædda samninga og tilkynnti framkvæmdastjórnin þann 7. mars síðastliðinn að hún hefði höfðað samningsbrotamál gegn Austurríki, Frakklandi, Þýskalandi, Póllandi, Portúgal, Svíþjóð, Bretlandi og Ítalíu fyrir að hafa ekki farið í opin útboð á nýtingarrétti vatnsfalla og tilheyrandi vatnsaflsvirkjunum.

Í síðasta mánuði boðuðu verkalýðsfélög í Frakklandi til verkfalla við vatnsaflsvirkjanir í eigu ríkisorkufyrirtækisins EDF í þeim tilgangi að mótmæla málshöfðun framkvæmdastjórnarinnar þar sem félögin telja að verið sé að einkavæða nýtingarrétt vatnsfalla, sem í dag eru að mestu nýttar af EDF.

Sömu reglur á Íslandi

Samningsbrotamálið sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur höfðað byggist á þjónustutilskipuninni frá 2006 annars vegar og reglugerð um opinber innkaup frá 2014 hins vegar. Þessar gerðir hafa verið innleiddar í löggjöf hér á landi, sú fyrri árið 2011 og sú síðari haustið 2016.

Leiða má því líkur að því að gildandi samningar um nýtingu vatnsafls við opinber fyrirtæki á borð við Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur verði boðnir út þegar samningstími þeirra rennur út. Jafnframt mun þurfa að endurskoða samningana með það fyrir augum að fyrirtækin greiði þar til gerð gjöld eftir atvikum til ríkis eða sveitarfélaga.

Birt voru á samráðsgátt stjórnvalda á föstudag drög forsætisráðuneytisins að stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands. Fyrsta grein draganna segir meðal annars að „veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni“. Þá segir í greinargerð að slík gjaldtaka geti meðal annars farið fram með nýtingarsamningum og er vísað til nýlega samninga ríkisins um nýtingarheimildir vatnsafls.

Óuppgert

Að því er Morgunblaðið kemst næst er óuppgert með hvaða hætti nýtingarsamningar verða gerðir, en ekki verður hjá því komist að slíkir nýtingarsamningar muni einnig þurfa að vera gerðir við opinber fyrirtæki sem nýta fallvötn í eigu ríkis og sveitarfélaga. Þá er óljóst hvernig sé hægt að komast hjá því að þeir nýtingarsamningar verði boðnir út þegar samningstíma lýkur án þess að skerða til muna aðkomu einkaaðila að rafmagnsframleiðslu, auk þess er ekki er vitað hvort starfshópurinn sé yfir höfuð að vinna markvisst að slíku markmiði. Meðal þeirra lausna sem eru til skoðunar er svokallað opið valferli sem felur í sér þrengri skilyrði en í almennu útboði.

Þar sem vinna starfshópsins stendur enn yfir er ekki vitað hvaða tillögur munu koma frá honum í þessum efnum. Jafnframt er óvíst hvaða tillögur ríkisstjórnin mun leggja fram þegar vinnu starfshópsins lýkur.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: