- Advertisement -

Lánið verður borgað með skattheimtu

„Það er vert að minna líka á það sem hæstvirtur fjármálaráðherra sagði við 1. umræðu, að hún væri á móti sköttum.“

Eyjólfur Ármannsson.

Eyjólfur Ármansson, Flokki fólksins, tók ríkan þátt í umræðu um fjáraukalög 2024. Hér eru fjórir fínar kaflar úr ræðunni:

Alþingi „Við í Flokki fólksins vöktum athygli á því í 1. umræðu um þetta frumvarp að hér væri verið að veita heimild til lántöku vegna náttúruhamfara og að þessir 30 milljarðar kr. kæmu inn í íslenskt samfélag á tímum mikillar verðbólgu í samfélaginu, 6,7% verðbólgu, þegar stýrivextir væru 9,25% og Seðlabanki Íslands hefði ekki ákveðið að lækka vexti — vegna hvers? Vegna óvissunnar á Reykjanesi. Ef þessir peningar færu inn í samfélagið myndu þeir auka á verðbólgu, þeir myndu auka á eftirspurn og auka á þenslu. Við vöktum athygli á þessu og sögðum að eðlilegra hefði verið að lækka ríkisútgjöld og hækka bankaskatt, hækka veiðileyfagjald og hækka skatta á breiðu bökin í samfélaginu. Það er a.m.k. mikilvægt að við séum ekki að auka verðbólgu eða gera nokkuð sem stuðlar að aukinni verðbólgu og það er mikilvægt að ríkið fari í mótvægisaðgerðir þegar svona fé fer inn,“ sagði Etyjólfur.

Næst er kafli um fyrstu varnargarðana og aukna skammtheimtu:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nei, það átti frekar að skattleggja almenning.

„En hvað um það, má ég ekki benda á að þegar við samþykktum frumvarp hér á Alþingi Íslendinga um að byggja varnargarða við Svartsengi og Bláa lónið var það frumvarp keyrt í gegn á einum degi, frá klukkan hálf tvö til kl. 11 um kvöldið? Og það var skattheimta á íslenskt samfélag. Í 4. gr. þess frumvarps var lagt viðbótarfasteignagjald á íbúa þessa lands til að borga fyrir þá framkvæmd upp á 2,5–3 milljarða kr. Við mótmæltum þessu og færðum góð rök fyrir því. Í fyrsta lagi var mikið í hinum almenna varasjóði, 3,8 milljarðar, sem hefði þurft að grípa til. Nei, það átti frekar að skattleggja almenning. Svo kom hæstvirtur fjármálaráðherra hér í 1. umræðu um þetta frumvarp og sagði að hún væri algjörlega á móti skattahækkunum, það væri eitthvað sem væri algjört bannorð, eftir að hafa keyrt í gegn frumvarp fyrr í haust, fyrstu löggjöfina sem var vegna viðbragða vegna eldsumbrotanna á Reykjanesi.“

Er Flokkur fólksins á móti að Grindvíkingum verði rétt hjálparhönd?

„Við í Flokki fólksins styðjum Grindvíkinga í þeim raunum sem þeir standa nú í, að hafa ekki verið á heimilum sínum frá því um miðjan nóvember, en það er fjármögnunin sem skiptir máli hér. Það skiptir máli að við rjúkum ekki til og dælum 30 milljörðum í íslenskt samfélag og að rétt sé að þessu staðið vegna áhrif á verðbólgu. Við verðum að ná niður verðbólgunni. Við verðum að gera það. Við verðum að ná stýrivöxtunum niður. Það verður bara að gerast. Það er allt frosið hérna með þessa stýrivexti og þetta gríðarlega háa vaxtastig sem er algerlega gjörsamlega galið. Og það eru heimilin í landinu sem eru að borga hundruð þúsunda, við getum kallað það skatt, vegna verðbólgunnar og þessara fáránlega háu stýrivaxta. Meira að segja sjálfur seðlabankastjóri hefur hvatt fólk til að fara í verðtryggð lán til að losna undan þeim.“

Að lokum þetta:

„Það er vert að minna líka á það sem hæstvirtur fjármálaráðherra sagði við 1. umræðu, að hún væri á móti sköttum. Ef ríkissjóður þarf að nýta þessa fjárheimild upp á 30 milljarða kr. er alveg deginum ljósara að þetta lán verður borgað með skattheimtu, það verður borgað með skattfé. Íslenski ríkissjóðurinn er ekki að fara að vinna í lotteríi eða einhver annar aðili að greiða þetta. Það verða skattborgarar þessa samfélags sem greiða þetta lán með vöxtum og vaxtavöxtum í framtíðinni. Þess vegna er mikilvægt að við förum ekki út í stórkostlegar lántökur til að styðja við bakið á Grindvíkingum í þessu máli. Þar fyrir utan mun það auka eftirspurn og koma í veg fyrir að vextir í landinu lækki og við náum tökum á verðbólgu sem við verðum að gera. Við verðum að ná tökum á verðbólgunni. Það er algjört grundvallaratriði. Það er ekki nægjanlegt að Seðlabanki Íslands sé einn að standa í því og á meðan sé íslenska ríkið að fá aukna lánsheimildir hjá Alþingi Íslendinga til að dæla milljörðum úti í samfélagið.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: