- Advertisement -

Litla Alexandra Eldey lést á Spáni aðeins 20 mánaða gömul – Söfnun hafin

Fjölskylda og vinir þeirra Birgittu Jeanne Sigursteinsdóttur og Finnboga Darra Guðmundssonar hafa hafið söfnun eftir að þau misstu 20 mánaða gamla dóttur sína, Alexöndru Eldey, úr bráðri heilahimnubólgu síðastliðinn laugardag, 18. júní, á Madríd á Spáni.

Veikindi Alexöndru Eldeyjar fóru að gera vart við sig í fluginu rétt fyrir komu fjölskyldunnar til Madríd að kvöldi miðvikudagsins 15. júní.

Systir Birgittu, Edda Sveinsdóttir, segir marga hafa haft samband og vilja leggja þeim lið á þessum erfiða tíma.

Í kjölfarið hafi verið tekin ákvörðun um að setja af stað söfnun til að létta fjölskyldunni róðurinn í því sem framundan er.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í færslu sem Edda birti kemur fram að Birgitta og Finnbogi hafi farið með Alexöndru Eldey beint eftir flugið á sjúkrahús; þar voru teknar prufur, gerðar ýmsar rannsóknir og henni gefin lyf.

Hún fór að hressast, var á batavegi og fengu þau leyfi til að fara með hana heim undir morgun.

„Að kvöldi næsta dags veiktist hún mjög hratt og fóru þau strax á sjúkrahúsið aftur, þaðan var hún flutt á háskólasjúkrahúsið í Madríd sem var betur til þess fallið að sinna hennar veikindum,“ segir Edda.

Alexandra Eldey hafði fengið allar ráðlagðar bólusetningar eins og önnur börn á Íslandi, þar með talið gegn Pneumococcum. Hún segir að bæði læknar og hjúkrunarfræðingar hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til að bjarga Alexöndru Eldeyju en lítið sé hægt að gera ef þessi baktería nær fótfestu, jafnvel þó viðkomandi sé á sjúkrahúsi.

Fjölskyldan óskar eftir því að þeim sé veittur friður til að takast á við sorgina.

Miðjan sendir fjölskyldu og aðstandendum Alexöndru Eldeyjar hjartanlegar samúðarkveðjur og hvetur alla til að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á eftirfarandi reikning hjá Íslandsbanka: Kt. 020190-3029 0537-14-104955

Blessuð sé minning þessarar fallegu litlu stúlku, Alexöndru Eldeyjar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: