- Advertisement -

Nafnarnir takast á um fátækt: Staðan á Íslandi með því besta sem þekkist

„Hugsið ykkur mannréttindabrotin sem verið er að fremja í dag gagnvart fötluðu fólki og öldruðu fólki — þau verða tekin til meðferðar í framtíðinni.“

Guðmundur Ingi Kristinsson.

„Mig langar að vitna aðeins í skýrslu forsætisráðherra um fátækt og áætlaðan samfélagslegan kostnað hennar frá því í júní á þessu ári en þar kemur fram, sem eru jákvæð tíðindi, að það hefur dregið úr hlutfalli tekjulágra á Íslandi á síðustu 20 árum og að staðan er með því besta sem þekkist meðal samanburðarlanda hér á Íslandi,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra.

„Í mínum huga þegar við horfum til örorkulífeyriskerfisins og örorkulífeyrisþega þá þarf að gera umfangsmiklar breytingar á örorkulífeyriskerfinu og eins og hv. þingmaður veit er sú vinna í fullum gangi í ráðuneyti mínu. Þetta er ástæðan fyrir því að við erum með um 16 milljarða kr. aukningu í fjármálaáætlun inn í málaflokkinn og vinnum að frumvarpi í ráðuneytinu núna hvað þetta varðar.

Áhersla mín mun verða á að sameina bótaflokka, einfalda kerfið, hækka þau sem minnst hafa í kerfinu, bæði grunninn en líka beita frítekjumörkum með þeim hætti að fyrstu tekjur fólks sem það hefur umfram örorkubætur séu ekki skertar og skerðingar komi síðan eftir því sem tekjurnar hækka. Ég held að breytingar á örorkulífeyriskerfinu, sem við vonandi sjáum fram á að komi inn í þingið sem fyrst eftir áramótin, verði næsta stóra skrefið til að draga úr fátækt á Íslandi,“ sagði Guðmundur Ingi ráðherra.

…Íslykilsgám, Skerðingarstúf og Uppbótarkræki.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, var ekki alsæll með fullyrðingar nafna síns:

„Ríkisstjórnin hefur hvað eftir annað hælt sér af því að hún hafi aldrei gert annað eins fyrir öryrkja, aldrei nokkurn tímann. Ég fer að halda að hún hafi tekið alræmda bræður í vinnu hjá sér; Íslykilsgám, Skerðingarstúf og Uppbótarkræki. Þetta eru þeir sem vinna fyrir ríkisstjórnina og þetta eru þeir sem á að kenna um hennar eigin klúður í þessum málum. Hugsið ykkur mannréttindabrotin sem verið er að fremja í dag gagnvart fötluðu fólki og öldruðu fólki — þau verða tekin til meðferðar í framtíðinni. Er það stefna þessarar ríkisstjórnar að í framtíðinni verði þessi mannréttindabrot til þess að það þurfi að borga sanngirnisbætur? Getið þið ekki einu sinni séð til þess að fólk geti t.d. notað íslykilinn? Ætlið þið að svelta fólk? Á það ekki að geta farið í banka, á það ekki að geta tekið út pening? Nú er búið að gera það þannig að mörg fyrirtæki eru farin að neita að taka við peningum sem er oft það eina sem aldrað fólk og fatlað fólk vill nota.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: