- Advertisement -

Ríkisstjórnin er vandi Alþingis

„Fyrir skömmu var kynnt nýtt plan, mikil áform, heildaráform um samstöðu ríkisstjórnarinnar í því hvernig ætti að takast á við þennan málaflokk.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Alþingi „Eins og hæstvirtur forseta og háttvirtum þingmönnum er kunnugt er Alþingi í miklum vanda þessa dagana. Sá vandi heitir ríkisstjórnin, sem við vitum aldrei hvort er að koma eða fara. Ég tek t.d. undir með háttvirtum þuingmanni Teiti Birni Einarssyni frá því hér áðan um áhyggjur af því sem hæstv. matvælaráðherra virðist nú vera að áforma um enn eina sóknina gegn íslenskum landbúnaði. En hvað ætla hinir stjórnarflokkarnir að gera í því? Það er ekki vitað. Eins er algjör óvissa uppi um ásælni óbyggðanefndar, fjármálaráðherra eða fjármálaráðuneytisins í land, í sókn gegn eignarrétti bænda. Við vitum ekki hvað verður ofan á þar. Hæstvirtur ráðherra hefur ekki svarað því,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi fyrr í dag.

„Mest áberandi er auðvitað þessa dagana algjört stjórnleysi í útlendingamálum. Fyrir skömmu var kynnt nýtt plan, mikil áform, heildaráform um samstöðu ríkisstjórnarinnar í því hvernig ætti að takast á við þennan málaflokk. Að langmestu leyti snerist þetta um áhugamál Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um að auka þjónustu og búa til nýtt aðdráttarafl en Sjálfstæðismenn áttu þó að fá að leggja fram í enn eitt skiptið litla útlendingamál sitt númer tvö. Nú hafa Vinstri grænir, eða a.m.k. þingflokksformaður þeirra, tilkynnt að það sé ekki alveg víst að það fari í gegn. Og hvers er að vænta, herra forseti, hvað þennan málaflokk varðar, þennan aðkallandi málaflokk, þegar það endurtekur sig aftur og aftur að haldnar eru einhverjar kynningar um samstöðu ríkisstjórnarinnar og stórkostleg áform og svo kemur á daginn að menn eru ekki sammála um nokkurn skapaðan hlut? Það er sérstakt áhyggjuefni því að það má engan tíma missa og mér sýnist ljóst, herra forseti, að þessi ríkisstjórn mun ekki á nokkurn hátt leysa úr þessum vanda,“ sagði formaður Miðflokksins.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: