- Advertisement -

Það sem má ekki tala um

Sprengisandur Ég las að gert er ráð fyrir fleiri ferðamönnum hér á landi um jól og áramót en áður hefur þekkst. Enn eitt metið mun falla. Ef ég man rétt fjölgar þeim flugfélögum sem ætla að fljúga hingað, íslensku flugfélögin eflast og allt bendir til enn fleiri ferðamenn komi á næsta ári en komu á þessu ári. Þetta er alveg magnað.

En hvernig sem ég hugsa man ég ekki eftir neinum aðgerðum til að taka á móti öllu þessu fólki á þeim viðkvæmu stöðum sem ferðamenn sækja. Er verið að vinna við göngustíga, til dæmis við Geysi, vinna að öryggi fólksins þar og við Gullfoss, fjölga salernum og gera klárt fyrir vertíðna? Hvað um Seljalandsfoss, eða Mývatn og öll undrin þar? Eiga kannski fjárvana sveitarfélög, að gera þetta allt saman? Sveitarfélög sem hafa litlar sem engar tekjur af öllu þessu ferðafólki. Ég veit það ekki, en man bara ekki eftir neinum fréttum af aðgerðum og uppbyggingu. Vona samt að ég sé að misskilja þetta allt saman herfilega.

Svo er hitt sem má ekki tala um. Ég talaði við ráðamenn í sveitarfélagi  þar sem er myndarleg ferðaþjónusta er, afþreying mikil fyrir ferðamenn, veitingastaðir og hvað eina. Hann sagði allt það fólk sem starfar við ferðaþjónusta vera með lægstu hugsanlegu tekjur, öll fyrirtækin rétt skríða yfir núllið og þess vegna munu skatttekjur sveitarfélagsins vera afar takmarkaðar af öllu umfanginu, en kostnaðurinn er víst því meiri. En um þetta vill enginn tala, sagði maðurinn, og undanskildi ekki sjálfam sig.

Hluti af leiðara úr Sprengisandi í dag, 6. desember 2015

 

Sigurjón Magnús Egilsson


Auglýsing