- Advertisement -

Þórdís fjármálaráðherra afneitar fátækt

„Hvert hefur hagvöxturinn farið? Hvert hefur hin aukna verðmætasköpun sem við höfum horft upp á undanfarin ár farið? Hún hefur að langmestu leyti farið til þessara hópa“

Þórdís K.R. Gylfadóttir.

Alþingi „Kaupmáttur launa hefur aldrei verið meiri. Við erum með skuldir heimilanna sem eru í sögulegu lágmarki og gögnin sem við höfum sýna að það eru fáir í raunverulegum greiðsluvanda. Lækkun á leikskólagjöldum hefur verið þannig að bótakerfið og leikskólagjöldin gera það að verkum að stuðningur til foreldra er meiri en á hinum Norðurlöndunum. Gögnin sýna að fjöldi fólks sem á erfitt með að ná endum saman hefur sífellt minnkað einmitt á tíma þessarar ríkisstjórnar,“ sagði Þórdís K.R. Gylfadóttir fjármálaráðherra á Alþingi fyrir fáum andartökum.

Ekki er hægt að skilja Þórdísi á annan hátt en þann að hún afneitar fátækt á Íslandi.

Leyfum henni að hafa orðið:

Þú gætir haft áhuga á þessum

…hvert hafa þeir tæplega 100 milljarðar farið…

„Hver er árangur þessarar ríkisstjórnar undanfarin ár við að bæta stöðu fólks í þessu landi? Staðreyndin er sú að allar tekjutíundir á Íslandi eru í betri stöðu nú en voru þá. Allir hópar hafa það betra nú en þeir höfðu þá. Og hvert hafa þeir tæplega 100 milljarðar farið sem við í dag skiljum eftir hjá fólki sem við áður tókum af þeim? Að langstærstum hluta sitja þeir nú eftir hjá tekjulægstu hópum landsins og rétt upp í millitekjur. Hvert hefur hagvöxturinn farið? Hvert hefur hin aukna verðmætasköpun sem við höfum horft upp á undanfarin ár farið? Hún hefur að langmestu leyti farið til þessara hópa,“ sagði Þórdís að auki.

Hún hélt áfram:

„Staðreyndin er sú að árangurinn er þarna, okkur hefur gengið vel og þeir hópar sem hafa hlutfallslega bætt stöðu sína mest eru m.a. þessir hópar og svo má reyndar líka horfa á réttindi og stöðu eldri borgara sem hafa bætt stöðu sína líka. Við höfum bætt í barnabótakerfið, við höfum bætt í húsnæðisstuðning.

Við erum núna í vinnu við aðkomu stjórnvalda að kjarasamningum. Þar er öll áherslan á þessi kerfi, öll áhersla. Það væri gott ef við fjölluðum meira um það hvernig okkur gengur að auka framleiðni á Íslandi og auka verðmætasköpun þannig að meira sé til skiptanna. Það sem er til skiptanna fer meira og meira í þessi bótakerfi, tilfærslukerfi, og síðan í skattalækkanir sem að langmestu leyti sitja nú þar sem þær eiga heima; hjá tekjulægri einstaklingum í landinu.“

Svo mörg voru þau orð. Ráðherra fjármála- og efnahagsmála er sýnilega þeirrar skoðunar að hér búi verst setta fólkið við mikið bættan hag.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: