- Advertisement -

Þorgerður Katrín les Bjarna pistilinn

„Í gær var bara eitt besta kennslubókardæmið um gaslýsingu þegar hæstvirtur forsætisráðherra sagði að árið 2024 væri sterkasta ár í efnahagssögu Íslands. Heyrið þið það, sterkasta ár. Sjáið þið ekki veisluna?“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Alþingi „Það hefur oft skort á veruleikatengingu í þessum sal af hálfu ríkisstjórnar og ekki síst ráðherra hennar, “ þannig byrjaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ræðu sína á Alþingi fyrr í morgun.

„Í gær var bara eitt besta kennslubókardæmið um gaslýsingu þegar hæstvirtur forsætisráðherra sagði að árið 2024 væri sterkasta ár í efnahagssögu Íslands. Heyrið þið það, sterkasta ár. Sjáið þið ekki veisluna? Enn og aftur dregið fram hér. Við erum með vexti yfir 6%, vexti í meira en heilt ár vel yfir 9%, halli er á fjárlögum í a.m.k. tíu ár. Verðbólgumarkmið Seðlabankans nást ekki fyrr en eftir tvö ár. Sex ár yfir verðbólgumarkmiðum. Það er sterkasta árið í efnahagssögu Íslands. Ég vil hvetja fólk til þess að skoða heimabankann hjá sér. Skoðið hvort verðtryggðu lánin, óverðtryggðu lánin hafa hækkað. Skoðið strimilinn þegar þið farið út í búð. Hefur eitthvað hækkað? Það hefur allt hækkað. Skoðið húsnæðislánin ykkar, skoðað hvernig buddan ykkar hefur þróast,“ sagði formaður Viðreisnar.

„Það sem við erum að horfa upp á hér er enn og aftur þessi skortur á veruleikatengingu sem því miður háir ríkisstjórninni og það háir henni líka í verkum hennar. Við erum að sjá það að allir óháðir sérfræðingar eru að benda ríkisstjórninni mjög vinsamlega á það að öll plön hennar eru ótrúverðug. Það er orðið sem er notað. Sérfræðingar segja: Plön ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum eru ótrúverðug. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir það sama á mjög penan hátt: Þið eruð óraunsæ og með ótrúverðugar áætlanir. En ráðherra og forystumaður í ríkisstjórn segir: Þetta er sterkasta ár Íslands í efnahagssögunni. Segið íslenskum heimilum það. Í staðinn er verið að sparka í heimilin sem er að reyna að koma sér í skjól undan íslensku krónunni og þessari efnahagsstjórn en það er verið að kvarta undan að íslensk heimili séu að leita að þessu skjóli og segja sig úr lögum við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Er ekki tími til kominn að tengja, segir í laginu, tengja, tengja, tengja?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: