- Advertisement -

Ugla gagnrýnir bannið: „Veitir fordómafullum einstaklingum og haturshópum byr undir báða vængi“

Kynjafræðingurinn og fyrrverandi formaður Trans Ísland, Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, er ekki sátt við ákvörðun Alþjóða sundsambandsins (e. FINA), en í gær samþykkti sambandið að banna trans konum að taka þátt í kvennagreinum á afreksstigi í sundkeppnum.

Björn Sigurðsson studdi bannið.

Fulltrúi Íslands kaus með tillögunni og rökstuðningurinn fyrir ákvörðuninni var sá, að sögn Björns Sigurðssonar, formanns Sundsambands Íslands, að það væri ósanngjarnt fyrir konur að keppa gegn einstaklingum sem hafa farið í gegnum kynþroskaskeiðið í öðru kyni.

Ugla gefur lítið fyrir þessi rök og segir að „ákvörðun FINA að banna trans konur byggir ekki á rannsóknum — heldur ótta, útilokun og fordómum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hluti þeirra landa sem kaus með þessu eru lönd þar sem það er ólöglegt að vera hinsegin – og sum kusu á móti banninu gerðu það því þeim fannst bannið ekki ganga nægilega langt. Pælið aðeins í því og hversu viðurstyggilegt það er,“ segir Ugla og bætir við:

„Það er ekkert sem bendir til þess að trans konur sem uppfylla ákveðin skilyrði séu með ósanngjarnt forskot eða yfirburði. Þær hafa verið að keppa með öðrum konum síðan á áttunda áratugnum. Ef það væri eitthvað vandamál, þá værum við búin að sjá það.“

Hún bendir á að „raunveruleikinn er sá að það eru örfáar trans konur sem keppa í afreksíþróttum, og þetta fár um trans konur í íþróttum er gjörsamlega uppblásið og tekið úr samhengi. Heildarmyndin er sjaldan sýnd, heldur bara einstaka dæmi um trans konu sem gengur vel notað til að gefa ranga mynd af afrekum hennar, og hún sökuð um svindl eða yfirburði.“

Ugla færir í tal að „fólk sem hefur aldrei skipt sér af kvennaíþróttum er allt í einu mætt til að „vernda“ konur og kvennaíþróttir — en hafa aldrei vakið athygli á þeim raunverulegu vandamálum sem konur standa frammi fyrir í íþróttum.

Í stað þess að ofsækja minnihlutahóp sem er þegar útskúfaður úr samfélaginu ættum við frekar að beina sjónum okkar að launamun milli karla og kvenna innan íþrótta; ójafnt aðgengi þeirra í verri efnahagsstöðu; aðgengi að íþróttaaðstöðu og þjálfurum sem tekur mið af fjölbreytileika; frekari rannsóknnum, eins og til dæmis hvernig er hægt að koma í veg fyrir meiðsli; aðgengi að barnapössun og aðstöðu fyrir börn á keppnismótum; uppræta kynferðisofbeldi og andlegt ofbeldi, sem íþróttakonur verða fyrir í stórum mæli; uppræta rasisma, hinseginfóbíu og fordóma gegn minnihlutahópum.“

Hún bendir einnig á að „auðvitað þarf frekari rannsóknir og reglur til að tryggja að reglur séu sanngjarnar — en þetta bann byggir ekki á inngildingu eða sanngirni, heldur útilokun, jaðarsetningu og fáfræði.

Það gerir ekkert en að útiloka trans fólk frá íþróttastarfi, félagsstarfi og samfélaginu í heild.“

Bætir við að lokum:

„Bannið veitir fordómafullum einstaklingum og haturshópum byr undir báða vængi og mun verða til þess að núverandi hatursalda styrkist enn frekar.

Þetta eru skelfilegar fréttir fyrir réttindabaráttu hinsegin fólks og er dæmi um hvernig er vegið að réttindum okkar allra, og hversu auðvelt það er að hrifsa þau af okkur.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: