- Advertisement -

Ungt fólk vinni prufudaga – launalaust

Vinnumarkaður Dæmi eru um að ungt fólk sé látið vinna launalaust í nokkra daga, svokallaða prufudaga.

Það er fleira sem ekki er einsog til er ætlast. Jafnaðarkaup er ennþá töluvert algengt og sömuleiðis gerviverktaka. Nauðsynlegt er að fólk þekki rétt sinn og skyldur varðandi vinnutíma og að ekki er hægt að kalla fólk á vaktir og senda það heim fyrirvaralaust án launa eins og gjarnan tíðkast.

Starfsgreinasamband Íslands blæs nú til átaks undir yfirskriftinni „Þekkir þú rétt þinn?“ Tilgangurinn er að vekja ungt fólk á vinnumarkaði til umhugsunar um réttindi sín, en því miður er raunin oft sú að unga fólkið er illa að sér um réttindi sín og skyldur. Átakið mun að mestu leyti fara fram í gegnum samskiptamiðilinn Facebook, enda þykir sá vettvangur sniðinn til að ná til ungs fólks.

SGS hefur látið útbúa sjö mismunandi „kubba“ með gagnlegum skilaboðum til ungs fólks á vinnumarkaði.