- Advertisement -

Valur svarar fyrir sig: „Það var hennar ætlun að tengja mig við ofbeldishótanir og nota vafasamar aðferðir til þess”

Valur Arnarson segir, í kjölfar birtingar Miðjunnar á frétt sem snerist um að hann hefði hótað Margréti Friðriksdóttur blaðamanni, að „staðreyndin er sú að ég hef aldrei hótað, hvorki Margréti Friðriksdóttur né þeim fyrirtækjum sem auglýsa hjá Fréttinni sem er síða sem hún heldur uppi.”

Valur segir að „málið er að þegar þetta mál kom upp milli Margrétar og Eddu Falak hérna fyrir nokkrum mánuðum, þar sem fóru í dreifingu fölsuð messenger samskipti sem virtust vera á milli þeirra, þá fór ég að skoða þessa síðu Fréttin.is.“

Margrét Friðriksdóttir.

Hann sá þar „færslur um trans fólk, sem miðillinn endurbirti frá öðrum, sem voru vægast sagt vafasamar. Þarna voru pistlar frá fólki sem höfðu enga fagþekkingu á málefninu, meðal annars frá Páli Vilhjálmssyni bloggara sem er nú undir smásjá vinnuveitanda síns, Fjölbrautaskóla Garðabæjar, vegna skrifa sinna,“ segir Valur og bætir við:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Ég sá að það voru nokkur fyrirtæki að auglýsa þarna og fór þá að velta því fyrir mér hvort viðkomandi aðilar vissu um hverslags efni fengi birtingu á þessum miðli. Þannig að ég sendi í rauninni bara fyrirspurn á þessi fyrirtæki um þetta.

Margrét Friðriksdóttir heldur úti vefmilinum frettin.is.

Nokkru síðar birtist svo frétt um mig á Fréttinni, þar sem ég er sakaður um að hvetja til sniðgöngu auglýsenda sem er bara alrangt. Það hef ég aldrei gert og Margrét Friðriksdóttir veit það vel.“

Í kjölfarið stofnaði Margrét „til umræðu um mig á Facebook síðu Fréttarinnar. Þar reyndi ég að koma leiðréttingum á framfæri en var blokkaður frá umræðum þar. Ég sendi þá kæru til Fjölmiðlanefndar þar sem ég kærði bæði meðferð fjölmiðilsins á mínu máli ásamt því að kæra miðilinn fyrir hatursáróður gegn trans fólki.“

Valur þurfti í kjölfarið að bíða lengi eftir svari:

„Svo leið og beið, og ég fékk ekkert frá Fjölmiðlanefnd til baka, nema bara að það væri verið að skoða þetta mál. Það liðu margar vikur og ég var satt best að segja búinn að gefa þetta upp á bátinn enda var ég svo sem aldrei vongóður um að það kæmi eitthvað út úr þessu.“

Valur segir að hann hafi skrifað „prósa á Twitter þann 13. júní í 6 hlutum, sem er birtur nákvæmlega klukkan 9:49 þann morguninn. Prósinn heitir Játning þess siðblinda og er í rauninni bara rant; ég var ekki að hugsa um neinn sérstakan þegar ég var að skrifa þetta og allt sem kemur þarna innan gæsalappa er sagt af skáldaðri persónu sem ég bjó til.

Það geta allir lesið prósann og séð að Margrét Friðriksdóttir er hvergi nefnd þar á nafn og þar er líka hægt að sjá nákvæmlega hvenær þetta var birt.

Ég fæ svo niðurstöðu Fjölmiðlanefndar vegna kærunnar minnar stuttu síðar, eða kl 11.09 þennan sama dag,“ segir hann og bætir við:

„Eftir að ég las úrskurðinn þá skrifaði ég færslu um hann á Twitter sem var í fjórum hlutum. Þar koma engar hótanir fram nema að ég segi að ég geti alveg eins hvatt til sniðgöngu þeirra fyrirtækja sem auglýsa hjá Fréttinni, vegna þess að það var það sem ég var sakaður um að gera án þess að það hefði nokkrar afleiðingar.

Sú færsla birtist nákvæmlega kl. 14.26 og það geta allir séð sem hafa áhuga á því að kynna sér málið. Þar birtist engin ofbeldishótun.“

Þann 20. júní síðastliðinn birtir Margrét svo færslu á Facebook síðu sinni þar sem hún „fullyrðir að ég hafi hótað henni ofbeldi. Til þess að láta þessar ásakanir sínar ganga upp, þá tekur Margrét skjáskot af seinustu tveimur hlutum prósans og svo af fyrsta og þriðja hluta færslunnar um úrskurð Fjölmiðlanefndar.

Mér datt fyrst í hug að hún hefði fengið þetta sent svona þannig að ég reyndi að leiðrétta þetta við hana í athugasemd við færsluna hennar, en hún eyddi henni út og blokkaði mig.“

Að lokum segir Valur að „það er því alveg ljóst að það var hennar ætlun allan tímann að tengja mig við ofbeldishótanir í sinn garð og nota vafasamar aðferðir til þess.

Hún treystir á að fólk fari ekki inn á Twitter sjálft til að skoða málið.“

– Trausti


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: