- Advertisement -

Vinaþjóð okkar Úkraína berst fyrir okkar gildum, okkar heimsmynd, okkar framtíð

„Ég hef satt best að segja áhyggjur af sinnuleysi og værukærð okkar varðandi stöðuna í álfunni okkar.“

Diljá Mist Einarsdóttir.

Alþingi „Ég hef verið á ferð og flugi og þakka saknaðarkveðjur sem mér hafa borist frá kollegum mínum hér. Og þið sem heyrðuð ekki í mér, ég veit að þið báruð harm ykkar í hljóði,“ sagði Diljá Mist Einarsdóttir á Alþingi fyrr í dag.

„En ég hef verið í samfloti við kollega mína aðallega frá Evrópu. Við fórum m.a. í áhrifamikla ferð til Kænugarðs í Úkraínu þar sem við sýndum samstöðu með baráttu Úkraínumanna gegn ofríki og ofbeldi Rússa. Og þar sem ég hef ekki haft tækifæri í millitíðinni til að deila þessu með ykkur hér þótt ég hafi gert það á öðrum vettvangi langar mig til að ítreka hversu alvarleg staðan er í Úkraínu. Þar berst þessi vinaþjóð okkar fyrir okkar gildum, okkar heimsmynd, okkar framtíð. Hjálpin og stuðningurinn frá vinum hefur borist seint og illa. Það er því jákvætt að hæstvirtur utanríkisráðherra hefur greint frá áformum um aukinn og fastmótaðan stuðning við Úkraínu í þessari sameiginlegu baráttu okkar,“ sagði Diljá Mist.

„Ég hef satt best að segja áhyggjur af sinnuleysi og værukærð okkar varðandi stöðuna í álfunni okkar. Ég hef sömuleiðis sótt fundi með evrópskum vinum okkar um EES-samstarfið og um utanríkis- og öryggismál og alls staðar er þetta meginþunginn, meginumræðan: Þung staða í Úkraínu, framferði Rússa, samheldni og samstarf illra afla í heiminum og barátta þeirra fyrir gjörbreyttri heimsmynd öxulvelda hins illa. Það er ekki heimsmynd sem okkur mun hugnast. Þessi umræða og þessar áhyggjur sem vinir okkar alls staðar í Evrópu og reyndar víðar í lýðræðisríkjum halda svo mjög á lofti endurspeglast einhvern veginn ekki alveg hér.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Að lokum sagði Diljá Mist.

„Maður finnur það gjarnan í alþjóðasamstarfi hvað áherslur okkar og þras frá degi til dags er frábrugðið því sem á sér stað annars staðar hjá nágranna- og vinaþjóðum, og þar horfi ég ekki síst til fjölmiðla, en það getur nú hver maður staðreynt með netvafri. En hvað um það. Það er gott að vera komin aftur.“

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: