- Advertisement -

Skiptir engu hvaða ríkisstjórn er

Byggðamál Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segir ekkert samráð vera við sveitartfélögin þegar ákvarðanir eru teknar. „Það er aldrei talað við okkur. Og það er alveg sama hvaða ríkisstjórn situr. Það er fullt af góðum stjórnmálamönnum sem vilja vel og hafa góðan hug í öllum þessum málum, en það er aldrei samráð, við erum aldrei spurð hvað okkur þykir best að gera eða skynsamlegast, eða hvort við höfum við hugmyndir um hagræðingu, eða hvort við getum hugsað okkur að taka yfir einhvern rekstur. Við höfum boðist til að taka yfir resktur heilbrigðisstofnunarinnar, okkur hefur ekki einu sinni verið svarað. Samráðið er ekkert og það er mjög sérstakt þar sem við erum stjórnsýslustig númer og ríkisvaldið hefur ekkert samráð við Fjórðungssambandið eða beint við sveitarfélögin. Það á nú ekki að vera flókið.“ Þetta sagði Ásthildur í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni.

„Ráðherrann hefur kosið að hlusta ekki á rök okkar heimamanna. Við getum ekki sætt okkur við þetta.“
„Ráðherrann hefur kosið að hlusta ekki á rök okkar heimamanna. Við getum ekki sætt okkur við þetta.“

Ásthildur segist ósátt með boðaðar breytingar á yfirstjórn heilbrigðisstofnunarinnar í sveitarfélaginu. Bæjaryfirvöld hafa boðist að taka reksturinn að sér, en hafa ekki verið virt svars. Þá óttast heimamenn að sýslumannsembættið verði aflagt og fært til Bolungarvíkur. Varðandi heilbrigðisstofnuna segir Ásthildur: „Ráðherrann hefur kosið að hlusta ekki á rök okkar heimamanna. Við getum ekki sætt okkur við þetta.“

Ásthildur segist óttast að starf hjúkrunarforstjóra og yfirlæknis flytjist frá þeim. „Það stefnir í stórkostlegar breytingar á samfélagsmyndinni. Okkur hefur tekist, eftir mikla erfiðleika, að snúa stöðunni við. Það er mikil uppbygging hjá okkur.“ Ásthildur segir að uppbyggingin sé ekki síst vegna þess að fyrirtæki, sem hafa komið sér fyrir á suðurhluta Vestfjarða, hafi horft til stofnana sem þar eru. Hún segir þá þjónustu sem nú verði jafnvel lögð af eða minnkuð hafa mikið að segja, fyrir fólk og fyrirtæki. „Þegar verður forsendubrestur þá verður forsendubrestur í öllu. Okkur finnst leiðinlegt að vera sífellt að glíma ríkisvaldið um það sama aftur og aftur. Sömu hugmyndirnar skjóta upp kollinum aftur og aftur. Það skiptir engu hvaða ráðherrar eru. Ég held stundum að þetta séu útópískar hugmyndir embættismanna um rekstur opinberra stofnanna, um að nauðsynlegt sé að spara á landsbyggðinni en ekki í Reykjavík. Það sama gerist við öll ríkisstjórnarskipti og svo þarf að hafa fyrir að tala menn ofan af þessu. Við mótmælum þessu alltaf.“

Ásthildur segir að þó þvermóðska ríkisvaldsins sé mikil, sé hún ekki minni hjá heimafólki. Kvartað er undan samskiptunum.