- Advertisement -

400 tonna kvóti til Þingeyrar

Atvinnumál bb.is segir frá að Byggðastofnun auglýsi eftir fyrirtækum til samstarfs í sjávarútvegi í fjórum þorpum á landsbyggðinni. Með samstarfinu fylgja umtalsverðar aflaheimildir og í tilfelli Þingeyrar eru það allt að 400 þorskígildistonn. Með breytingu á lögum í júní 2013 í samþykkti Alþingi að Byggðastofnun skuli hafa til ráðstöfunar aflaheimildir til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Sjávarútvegsráðherra ákvað í síðustu viku að auka aflaheimildir Byggðastofnunar um 1100 þorskígildistonn og tekur breytingin gildi á næsta fiskveiðiári. Endanlegt val á samstarfsaðilum mun byggja á eftirfarandi þáttum: trúverðugum áformum um útgerð, vinnslu sjávarafurða eða aðra starfsemi.
Meginmarkmið verkefnisins er að auka byggðafestu í þeim sjávarbyggðum sem standa frammi fyrir alvarlegur og bráðum vanda vegna skorts á aflaheimildum eða óstöðugleika í sjávarútvegi, eru háðastar sjávarútvegi og eiga minnsta möguleika á annarri atvinnuuppbyggingu, eru fámennar, fjarri stærri byggðakjörnum og utan fjölbreyttra vinnusóknarsvæða.

Með verkefninu er stefnt að uppbyggingu í sjávarútvegi sem skapar eða viðheldur sem flestum heilsársstörfum við veiðar, vinnslu og afleiddra starfa í viðkomandi sjávarbyggðum og stuðlar að sem öflugastri starfsemi í sjávarútvegi til lengri tíma.

Stjórn Byggðastofnunar hefur á grundvelli greiningar á stöðu einstakra byggðarlaga ákveðið að auglýsa eftir samstarfsaðilum um nýtingu viðbótaraflaheimilda til að stuðla að meginmarkmiðum verkefnisins í eftirtöldum sjávarbyggðum sem falla að ofangreindum viðmiðum: Breiðdalsvík í Breiðdalshreppi, allt að 150 þorskígildistonnum. Djúpivogur í Djúpavogshreppi, allt að 400 þorskígildistonnum. Hrísey í Akureyrarbæ, allt að 150 þorskígildistonnum. Þingeyri í Ísafjarðarbæ, allt að 400 þorskígildistonnum.


Auglýsing