- Advertisement -

Fyrrverandi samverkamenn Katrínar votta henni hollustu sína

„…þrautreyndur og fimur og langreyndur stjórnmálamaður, sem safnað hefur að baki sér öllum helstu valdamönnum þjóðarinnar.“

Þröstur Ólafsson.

Forsetakosningar „Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin, var haft á orði þegar þeim sterkustu var skipað fremst í orrustu, ef halla tók á merinni og yfirvinna þurfti meiri mótstöðu en gert hafði verið ráð fyrir. Þessi tilvitnun í frásögu úr grænni fortíð datt mér í hug þegar auglýsingar um kosti eins forsetaframbjóðandans glumdu í eyrum mér á dýrasta birtingartíma sólarhringsins. Á erfiðum tímum hafði Katrín og þeir sinnt skyldu sinni og farnast það vel. Þarna voru fyrrverandi samverkamenn Katrínar að votta henni hollustu sína.“

Þetta segir í nýrri grein Þrastar Ólafssonar sem hann birti á Facebooksíðu sinni.

„Ferill fárra stjórnmálamanna er alfarið fagurt flekkleysi,“ skrifar Þröstur og heldur áfram:

„Á sjö ára tímabili hennar í stóli forsætisráðherra juku fjármagnsöflin áhrif sín markvisst bæði á sviði stjórnmála sem og viðskipta, meðan þeir sem töldu sig bera hag verka-og launafólks fyrir brjósti, komu að mestu bónleiðir til búðar. Vinnuaflið hafði lotið í gras. Leiðir þess þóttu torfærar. Gildismat þjóðarinnar hafði breyst.“

Þröstu skrifar um ójafna stöðu frambjóðenda gagnvart Katrínu Jakobsdóttur:

„Á flestum sviðum þjóðlífsins voru farvegir auðs og peninga orðnir auðrataðri. Áhrif þeirra sem þar ráða ríkjum eru auðrekjanlegir.

Það er annars forvitnilegt að hlusta á lítt skólaða frambjóðendur reyna að fóta sig á svelli loforða og fyrirheita sem flest eru skringileg, fjalla jafnvel um húsdýrahald á Bessastöðum, vangaveltur um herskyldu og kjarnavopn! ráðherraskipunarvald forseta (?) og um heima og geima sem flestum koma spánskt fyrir sjónir. Vandræðasvör óþjálfaðra frambjóðenda sem láta taka sig í bólinu eru ofar hjákátleg.

Aðstöðumunur frambjóðenda er augljós. Þarna fer annars vegar þrautreyndur og fimur og langreyndur stjórnmálamaður, sem safnað hefur að baki sér öllum helstu valdamönnum þjóðarinnar.

Hins vegar tvístruð, sundruð hjörð frambjóðenda, sem hefur lítið annað á bak við sig en eigin metnað og samhug stuðningsmanna sinna.

Nú er að bíða og sjá hvað setur.“

Fyrirsögnin er Miðjunnar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: