- Advertisement -

Sagan endurtekur sig – Halla Hrund á sigurbaraut!

Jón og tvíeykið eru auðvitað góðir menn og gegnir, hæfir til margs, en hvorugur aðilinn fyllir þó þá kjörmynd, sem mér finnst verða að gilda. Ber þar mikið á milli í báðum tilvikum.

Ole Anton Bieltvedt.

Ole Anton Bieltvedt skrifar:

Stjórnmál Þriðju forsetakosningarnar í sögu lýðveldisins fóru fram 1968. Segja má, að þær hafi markað ákveðin tímamót. Þar tókust á Kristján Eldjárn, hámenntaður og háttsettur embættismaður, sléttur og felldur í allri sinni háttsemi, einn af okkur, almenningi. Hins vegar Gunnar Thoroddsen, gáfumaður og ræðusnillingur, sem hafði verið kjörinn á þing 23ja ára og verið hafði sendiherra, borgarstjóri og ráðherra. Atvinnupólitíkus.

Kosningaátökin og úrslitin

Vindarnir breyttust þó…

Kristján var hispurslaus og alúðlegur, hafði ekki blandað sér mikið í pólitík, og var yfirmaður Þjóðminjasafnsins. Þjóðminjavörður.  Hann lagði mikið upp úr öllu því, sem þjóðlegt var, á sama hátt og hann var sigldur maður, jafnt með tilliti til menntunar og reynslu. Þjóðlegur og alþjóðlegur í senn.

Í fyrstu mældist Gunnar, sem var talinn einn glæsilegasti og mælskasti stjórnmálamaður síns tíma, með miklu meira fylgi í skoðanakönnunum, enda studdur af ráðandi stjórnmálaöflum.

Vindarnir breyttust þó, þegar í kosningabaráttuna var komið. Kristján kom fram sem alþýðlegur menntamaður, sem tengdist landi og þjóð betur, en atvinnupólitíkusinn Gunnar. Fólki fannst, að Kristján væri einn af þeim, og, að það gæti treyst honum betur, sem fulltrúa sínum gagnvart Alþingi og famkvæmdarvaldinu, en Gunnari. Á kjördegi vann Kristján öruggan sigur yfir Gunnari með um tveimur þriðju atkvæða.

Þarna kom fram tilhneiging, vaxandi vilji þjóðarinnar, til að skilja að forsetaembættið og stjórnmálin, til að tryggja aukið eftirlit og aðhald gagnvart stjónrmálunum, sem haldizt hefur síðan, með einni undantekningu. Ekki bara Kristján, heldur líka Vigdís og svo Guðni voru kosin á grunni þessarar sömu afstöðu.

Sagann virðist vera að endurtaka sig

…má líkja við framboð Kristjáns Eldjárns…

Stöðu og framboði Höllu Hrundar Logadóttur má líkja við framboð Kristjáns Eldjárns og framboði Katrínar Jakobsdóttur við framboð Gunnars Thoroddsen 1968. Fulltrúi þjóðarinnar gegn fulltrúa stjórnmálamanna og valdastéttar.

Auðvitað eru fleiri frambjóðendur á ferð í þeirri kosningabaráttu, sem nú stendur, og standa þeir Jón Gnarr og tvíeykið, Baldur&Felix, þar fremstir. Ég gæti þó trúað því, að, þegar frammí sækir og mynd hvers og eins þessara frambjóðenda skýrist, muni fylgi þessara herramanna dala, jafnvel verulega og hratt, og, að endaslagurinn muni standa milli Höllu Hrundar og Katrínar.

Varðandi endanlega afstöðu og val manna, vil ég rifja upp þá kjörmynd, sem mér finnst að forseti landsinsþyrfti að fylla, og ég hygg, að flestir geti verið mér sammála um:

Forsetinn verður að vera þjóðlegur – sannur Íslendingur – og alþjóðlegur í senn. Umhverfis- og náttúruverndarsinni. Með tandurhreinan bakgrunn, flekklaust einkalíf, fallega, venjulega íslenzka fjölskyldu, góða menntun og reynslu, jafnt á sviði íslenzkra málefna sem alþjóðlegra. Laus við stjórnmálavafstur- og valdabrölt, óháður stjórnmála- og valdastéttinni. Með framtíðarskyn og -sýn og ríka ábyrgðartilfinningu gagnvart þörfum og velferð komandi kynslóða. Hann ætti að einkennast af hógværð og látleysi, en þó bera sig vel. Standa keikur meðal annarra fyrirmenna.

Jón og tvíeykið eru auðvitað góðir menn…

Fyrir mér fyllir Halla Hrund þessa afar krefjandi kjörmynd á nær allan, eða allan, hátt. Ekki verður það sama um Katrínu Jakobsdóttur sagt. Hún er reyndar elskuleg í viðmóti, góðum gáfum gædd, mikill námsmaður og vel menntuð –  reyndar bara innanlands – og margreynd, en einkum í stórnmálavafstri. Langvarandi erlenda reynslu og þekkingu hefur hún ekki. Og, ef menn vilja skilja á milli forseta og stjórnmála, hentar Katrín auðvitað ekki. Hún hefur verið stjórnmálamaður mest allan sinn feril.

Fyrir undirrituðum er forsætisráðherramynd Katrínar, síðustu tæplega 7 árin, líka all blandin; margt, sem stefnt var á og lofað 2017, hefur ekki staðizt eða rætzt, og fylgi hennar/VG er hrunið úr 17% í 5%. Fellur því nokkur skuggi á trúverðugleika ágætrar Katrínar. Dæmi þetta hver fyrir sig.

Jón og tvíeykið eru auðvitað góðir menn og gegnir, hæfir til margs, en hvorugur aðilinn fyllir þó þá kjörmynd, sem mér finnst verða að gilda. Ber þar mikið á milli í báðum tilvikum.

Varðandi Jón, þá er hann betur kominn í tvíhöfða eða áramótaskaupi, en á Bessastöðum, enda sprellið hans helzta karaktereinkenni. Hann getur áfram verið gleðigjafi þjóðarinnar, þar sem hann er nú.

Varðandi tvíeykið, er spurning hvort þjóðin vilji slíkt forsetaform, tvíeyki, á Bessastaði. Forseta og „bónda“!? Er það rétt og sönn forsetaímynd landsmanna? Vitaskuld dæmir líka hér, hver fyrir sig.

Höfundur er stjórnmálarýnir og dýraverdarsinni.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: