- Advertisement -

Hví er Halla Hrund Logadóttir kjörin og rétt í forsetaembættið?

Ole Anton Bieltvedt skrifar:

Forsetakosningar. Fyrir rúmri viku skrifaði ég grein um forsetakosningarnar, og þá einkum um Katrínu Jakobsdóttur, bakgrunn hennar og stöðu í málinu. Ég taldi hana bezta – ég hefði átt að segja skásta, það var meiningin –, þegar ég setti þá grein á blað, en akkúrat um þá helgi kom fram nýtt framboð, framboð Höllu Hrundar Logadóttur, sem ég taldi strax, og það með afgerandi hætti, fara á toppinn.

Gafst þá ekkert ráðrúm til skýringa. Þær skulu því koma hér og nú:

Þó að forseti Íslands hafi ekki mikil bein völd, er hann fulltrúi og ásýnd Íslands og Íslendinga gagnvart umheiminum. Hann er líka sameiningartákn Íslendinga og fulltrúi þjóðarinnar gagnvart Alþingi og framkvæmdarvaldinu.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Jón Gnarr , Baldur Þórhallsson og Halla Hrund Logadóttir frambjóðendur til embættis forseta Íslands. Myndin er úr Pallborði Visis og Stöðvar 2.

Því verður að vanda val nýs forseta vel. Hluti af matinu verður að vera, hvort vel fari á því, að litríkur og umdeildur stjórnmálamaður, kona með blandaðan feril að baki, Katrín Jakobosdóttir, sem skiptar skoðanir eru um – menn sveiflast þar allan skalann – geti orðið sannur fulltrúi þjóðarinnar allrar. Mér er það til efs! Hún verður aldrei sameiningartákn.

Á FB-síðu sinni kynnir Halla Hrund sig svona:

Halla Hrund:
Ég ólst upp við þau gildi að mikilvægt væri að leggja sig fram, trúa á það góða í fólki og að allt væri hægt.

„Ég býð mig fram til embættis forseta Íslands sem fulltrúi almennings, fulltrúi fólksins í landinu. Ég ólst upp í blokk í Árbænum og varði öllum skólafríum í sveitinni austur á Síðu hjá ömmu og afa. Ég ólst upp við þau gildi að mikilvægt væri að leggja sig fram, trúa á það góða í fólki og að allt væri hægt. Í embætti forseta Íslands vil ég halda þessum gildum á lofti og leggja áherslu á samstöðu okkar sem þjóðar, náttúru okkar, menningu og hugvit – fyrir framtíðina“.

Fyrsta tilfinning mín fyrir þessari sjálfskynningu var afar góð. Hér ræður látlaus framsetning, en um leið heilbrigð þjóðerniskennd, náttúru- og menningarvitund, víður skilningur, ásamt með velvild og bjartsýni, för.

Ferill frambjóðenda er auðvitað líka feikimikilvægur, þegar frambjóðendur eru skoðaðir og metnir. Hér er ferill Hrannar Hrundar í grófum dráttum:

Halla Hrund er fædd í Reykjavík 12. mars 1981. Eiginmaður hennar er Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri og meðstofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins 50skills. Þau eiga tvær dætur, Hildi Kristínu, 11 ára, og Sögu Friðgerði, 4 ára. 

Halla Hrund:
Halla Hrund var skipuð orkumálastjóri árið 2021, fyrst kvenna. Hún starfar jafnframt sem aðjúnkt við Harvard þar sem hún kennir á meistarastigi.

Halla Hrund er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, meistaragráðu í alþjóðasamvinnu með áherslu á hagfræði og orkumál frá The Fletcher School við Tufts háskóla, og meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Harvard háskóla með áherslu á umhverfis- og orkumál.

Halla Hrund var skipuð orkumálastjóri árið 2021, fyrst kvenna. Hún starfar jafnframt sem aðjúnkt við Harvard þar sem hún kennir á meistarastigi. Frá árinu 2017 hafði hún starfað sem meðstofnandi og framkvæmdastjóri við miðstöð Norðurslóða, Arctic Initiative, við Harvard. Árið 2019 var Halla Hrund valin Young Global Leader og kom Halla Hrund að kortlagningu breytingaþátta Norðurslóða á vettvangi World Economic Forum. Frá árinu 2015-2021 vann  Halla Hrund að nýsköpunarverkefninu Arctic Innovation Lab í samvinnu við fjölda háskóla og var leiðbeinandi í ýmsum orkutengdum nýsköpunarhröðulum.

Forsetinn verður að vera þjóðlegur – sannur Íslendingur – og alþjóðlegur í senn. Umhverfis- og náttúruverndarsinni. Með tandurhreinan bakgrunn, flekklaust einkalíf, fallega, venjulega fjölskyldumynd, mikla og góða menntun og reynslu að sama skapi. Frjáls og hlutlaus og með víðan sjóndeildarhring, jafnt á íslenzk málefni sem alþjóðleg. Hann verður að hafa alþýðlegt en tígulegt fas. Bera sig vel, hafa látlausa en kraftmikla útgeislun, góða áru, standa skær meðal annarra fyrirmenna.

Fyrir mér fyllir Halla Hrund þessa afar krefjandi kjörmynd vel og á allan hátt.

Auk Katrínar Jakobsdóttur standa tveir kandídatar fremstir í stöðunni. Baldur Þórhallsson og Jón Gnarr. Hvorutveggja á margan hátt fínir menn og frambærilegir, en, ef þeir eru mátaðir við kjörmyndina hér að ofan, flíspassar hvorugur fyrir mér. Eru þar veruleg vanhöld í báðum tilvikum.

Lesandi góðu, þú getur sjálfur mátað þinn kandídat við kjörmyndina, og ákveðið þig svo. Það er mikið í húfi.

Heill Höllu Hrund og Íslendingum!

Höfundur er samfélgsrýnir og dýraverndarsinni


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: