- Advertisement -

Áróður foringja og fúkka

Stjórnmál/Umræðan„Einungis þeir sem leitast ekki eftir valdi eru hæfir til að beita því.“ -Plató

Hversu ótrúlegur náungi er þessi Sigmundur Davíð? Ef hann er ekki næsti Davíð Oddsson er hann a.m.k. næsti Jónas frá Hriflu. Einhvernvegin tókst honum að eima og pakka foringjadýrkun landsins í meðfærilegan fák. Fáir stjórnmálamenn hafa farið í gegnum jafn mikinn rússíbana og komið út sem sigurvegarar.

Hann gat skikkað mína kynslóð, jafnvel ófæddar kynslóðir, til að borga fyrir mislukkaðar fjárfestingar eignafólks. En smánarbletturinn á arfleifð hans er ekki sú 800 milljarða- nei, 300 milljarða- nei, 80 milljarða gjöf heldur mímað viðtal um skattaskjól sem sekkur dýpra og dýpra í skotgrafir orðhengilsháttar með hverjum mánuðinum.

Ekkert handrit var tilbúið fyrir það viðtal. Honum mistókst að halda andliti í nokkrar mínútur og var því lækkaður í tign. Hefði hann setið þarna og þulið „stöðugleiki – tækifæri – forysta“ þar til Jóhannes Kr. gæfist upp hefði hann náð heilu kjörtímabili.

Einu sinni var landinn rómaður fyrir höfðingjadirfsku. En Kjartan, Brák og Egill eru löngu dauð. Í staðinn hefur hreiðrað um sig syfjuleg undirlægja, einstaka sinnum brotin upp þegar fólk tapar pening (búsáhaldabyltingin) eða einhver á meiri pening (Panama-pappírarnir).

Elítan gerir sér vel grein fyrir þessari hegðun. Þegar upp koma skandalar er alltaf sama ferlið. Vörnin er einföld og áhrifarík til að stjórna umræðunni:

„Ekkert gerðist. Og ef eitthvað gerðist var það ekki svo slæmt. Og ef það var það, var það ekki okkur að kenna. Og ef þetta var okkur að kenna þá áttuð þið það skilið.“

Hver svo sem hefur átt í slæmu sambandi við foreldra, vin eða maka þekkir hegðunina. Þekkir tilbúnu útskýringarnar, æfðu svörin, og hrokann og heiftina þegar ýtt er eftir heiðarleika.

„Hvað varst ÞÚ að skoða hvað ég var að gera?“ „Hvað varst ÞÚ að byrja að ræða þetta?“ „Hvað varst ÞÚ…“

Og þegar allt annað bregst, þegar útsmoginn orðhengilsháttur, ásakandi gasljós og einörð hundsun virka ekki, þá er allt sprengt í loft upp og strunsað út. Það er forysta. Það er stöðugleiki. Það er eitrað samband við eitraða manneskju.

Fylgist með í næstu hringrás skandala. Almannatengsla afsakanir beint í æð. Sömu orðin á sama tíma með öllum hæfileikum áhugaleikara en engri af innlifuninni. Raða sér upp á vaktir fyrir hádegis- og kvöldfréttir og svo er hægt að halda áfram að grilla. Næsta skref eru slagorðin. Þau virka alveg eins og bæn.

„FORYSTA til framtíðar STÖÐUGLEIKI í samfélaginu FRELSI í atvinnu“ en ólíkt bæn hafa þessar línur enga þýðingu, hvorki ljósa né dulda. Þú getur klippt og límt þessi orð að vild og kosningabaráttan breytist ekkert. Forysta til frelsis? Stöðugleiki í atvinnulífinu? Frjáls forysta til stöðugs atvinnulífs í framtíðinni? Innihaldslaust. Orð eru það eina sem skilja að menn og önnur dýr. Þeim er ætlað að flytja hugmyndir milli heila og þetta er úrkynjun á því stórkostlega ferli. Kosningaáróður er fyrir tungumálið það sem tsjíváva eru fyrir úlfa. Finnst engum þetta niðurlægjandi? Sama hvort foringjarnir horfa á kjósendur úr kvöldfréttum eða strætóskýlum, vinstri væng eða hægri, þá horfa þau öll niður á okkur.

 

Höfundur er Halldór Logi Sigurðarson, stuðningsfulltrúi og í 6. á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: