- Advertisement -

Krafan á að vera kosningaréttur til allra

Og í dag ætti baráttan að snúast um kosningarétt innflytjenda, barna og ungmenna.

Gunnar Smári skrifar:

19. júní: Í dag, þegar við minnumst þess að 105 ár eru síðan að konur og eignalausir karlar fengu kosningarétt, takmarkaðan fyrst en með því markmiði að hann yrði almennur, er góður tími til að setja fram kröfur um næstu skref almenns kosningaréttar.

Fyrsta krafa ætti að vera um kosningarétt til allra sem borga skatta til ríkisins. Við það myndu innflytjendur fá kosningarétt, en í dag hafa þeir aðeins takmarkaðan rétt til að kjósa til sveitastjórna. Þar sem innflytjendur eru nú nærri helmingur ófaglærðs verkafólks veldur svipting kosningaréttar innflytjenda því að veikast stæði verkalýðurinn hefur aðeins 1/2 atkvæði á móti hinum best settu. Þetta veldur óþolandi skekkju innan lýðræðisvettvangsins, því að stjórnmálin snúa ekki að hinum verst settu og byggja því frekar upp samfélagið eftir hagsmunum hinna skár og betur settu.

Foreldrar færu með atkvæði barna sinna fram að sjö ára aldri.

Önnur krafa ætti að vera kosningarréttur til allra, óháð aldri. Þegar konur og eignalausir karlar fengu kosningarétt 19. júní 1915 var í fyrstu miðað við 40 ár, en í hægum skrefum áttu þau mörk að lækka í 25 ár. Vegna andstöðu danskra yfirvalda var þeirri breytingu flýtt. Síðar var kosningaréttur lækkaður í 21 ár árið 1934, í 20 ár 1968 og árið 1984 í 18 ár. Það er síðasta aukning kosningaréttar á Íslandi. Eins og sést af þessu er útvíkkun kosningaréttar fyrst og fremst árangur af mannréttindabaráttu nítjándu aldar og fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Sú útvíkkun færði áherslur stjórnmálanna frá borgarastéttinni að almenningi, en síðustu sjötíu árin hefur valdastéttinni, elítu og auðvaldi, tekist að hemja lýðræðisvettvanginn og tryggja yfirráð sín yfir ríkisvaldinu. Ein leið til að vinna gegn því er að raska grunninum sjálfum, kosningarétti. Í fyrsta lagi með því að gefa innflytjendum rétt til að hafa áhrif á ríkið sem það greiðir skatta til og í öðru lagi með því að hætta að meina börnum og ungmennum kosningarétti.

Þegar ég fæddist fyrir tæpum sextíu árum var vægi foreldrakynslóðarinnar á kjörskrá svipað og sami hópur fengi í dag ásamt öllum börnum 17 ára og yngri. Þetta sýnir náttúrlega hversu vægi þessa hóps hefur skroppið saman. Og afleiðingarnar ættu að blasa við öllum; stjórnmálin snúast miklu síður um hagsmuni barnafjölskylda í dag en fyrir hálfri öld eða svo. Það að gefa öllum kosningarétt, óháð aldrei er ekki rótttækari hugmynd en þetta; myndi færa áhrif barnafjölskylda álýðræðisvettvanginn til þess sem var fyrir hálfri öld.

Framkvæmdin gæti verið þannig að foreldrar færu með atkvæði barna sinna fram að sjö ára aldri, mættu fara með börnunum inn í kjörklefan til tólf ára aldurs en eftir það ættu börnin að geta sinnt þessu óstudd og án afskipta annarra.

Hér á landi búa um 45 þúsund manns sem ekki hafa ríkisborgararétt og þar af leiðandi ekki kosningarétt. Lang stærsti hluti þessa fólks borgar hér skatta.

Hér á landi búa rúmlega 80 þúsund börn og ungmenni sem njóta ekki kosningaréttar.

Kosningaréttur er grunnréttindi, skerðing kosningaréttar er kúgun.

Eins og útvíkkun kosningaréttar fyrir rúmum hundrað árum sýndi, leiðir slíkt ekki sjálfkrafa til betra samfélags. Það byggist aðeins upp á virkni hinna kúguðu á öllum sviðum samfélagsins, ekki aðeins innan lýðræðisvettvangsins. En kosningaréttur er grunnréttindi, skerðing kosningaréttar er kúgun.

Við ættum því að snúa fram þennan 19. júní. Auðvitað er sjálfsagt að fagna sigrum fólks í áratuga langri baráttu fyrir rúmri öld; en það er til lítils ef það hvetur okkur ekki áfram til baráttu í dag. Og í dag ætti baráttan að snúast um kosningarétt innflytjenda, barna og ungmenna.

Ef fólk vill svipta einhverja hópa kosningarétti má vísa til tillögu Joseph Schumpeter, sem lagði það til um miðja síðustu öld að opinberir starfsmenn yrðu sviptir kosningarétti þar sem þeir hefðu næg áhrif á samfélagið í gegnum störf sín. Schumpeter er augljóslega þarna að tala um æðstu embættismenn, ekki fólkið sem vinnur á gólfinu í heilbrigðis- eða menntakerfinu. Í dag er áhrif auðfólks á samfélagið augljósari en áhrif embættismanna var á tímum Schumpeter. Ef fólk vill endilega svipta einhvern hóp kosningarétti mætti því svipta öll sem eiga meira en milljarð króna í hreinni eign réttinum til að kjósa og setja á þau nálgunarbann gagnvart stjórnmálafólki og stjórnsýslunni. Það hefði örugglega jákvæðari áhrif á uppbyggingu samfélagsins en að svipta innflytjendur, börn og ungmenni réttinum til að hafa áhrif á samfélagið sem þau lifa og starfa innan.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: