- Advertisement -

Hvað gengur Guðmundi Franklín til með forsetaframboði sínu?

Guðmundur bauð sig fram fyrir Hægri græna 2013, sem var ár hinna mörgu framboða, og fékk 1,7% fylgi.

Gunnar Smári skrifar:

Hvað gengur Guðmundi Franklín til með forsetaframboði sínu? Vill hann nota það til að kynna sig fyrir næstu þingkosningar, trúir hann að hann geti fellt Guðna Th. eða vill hann nota þennan vettvang til að koma tilteknum málum á dagskrá?
Ekki kann ég svarið við þessu. En það eru nokkur dæmi um að fólk sem boðið hefur sig fram til forseta hafi síðar snúið sér að stjórnmálum á vettvangi þings. Ekki þó jafn algengt og hin leiðin; að fyrrum þingfólk bjóði sig fram.
Þau sem voru á vettvangi þings en biðu sig svo fram voru: Ásgeir Ásgeirsson, Gísli Sveinsson, Gunnar Thoroddsen, Albert Guðmundsson, Guðrún Agnarsdóttir, Ólafur Ragnar Grímsson og Davíð Oddsson. Sturla Jónsson er líka í þessum hópi þótt hann hafi ekki náð inn í þing, en hann bauð sig fyrst fram til þings fyrir Frjálslynda flokkinn 2009 og í eigin nafni 2013 áður en hann bauð sig fram til forseta 2016.
Þau sem hafa farið í framboð til forseta og svo til þings eru Gunnar Thoroddsen (já, hann hætti á þingi, gerðist sendiherra, bauð sig fram til forseta og fór svo aftur í framboð til þings og flaug inn, varð meira að segja forsætisráðherra eftir nokkrum krókaleiðum), Andrea Ólafsdóttir (forsetaframboð 2012 og svo þingframboð fyrir Dögun 2013), Ari Trausti Guðmundsson (forsetaframboð 2012 og svo þingframboð fyrir VG 2016) og Sturla Jónsson (aftur, hann bauð sig fram til forseta 2016 og fyrir Dögun til þings 2016).
Og virkar þetta? Það er allur gangur á því. Kannski er reglan sí að þetta virkar fyrir fólk sem kemst á lista hjá rótgrónari flokkum en verr (eða ekki) fyrir þau sem vilja nota kynningu vegna forsetakosninga til að ýta undir framboð nýrra flokka eða þeirra sem ekki hafa náð á þing.
Eftir tap í forsetakosningum ætti Guðmundur Franklín því ef til vill frekar að banka upp hjá Miðflokki eða Flokki fólksins en reyna að endurvekja Hægri græna. Guðmundur bauð sig fram fyrir Hægri græna 2013, sem var ár hinna mörgu framboða, og fékk 1,7% fylgi. Til samanburðar fengu Píratar þá 5,1% (Birgitta Jónsdóttir o.fl.), Dögun 3,1% (Andrea Ólafsdóttir o.fl.), Flokkur heimilanna 3,0% (Pétur Gunnlaugsson o.fl.), Lýðræðisvaktin 2,5% (Þorvaldur Gylfason o.fl.) og Regnboginn 1,1% (Jón Bjarnason o.fl.) svo fátt eitt sé talið. Kjörþokki Guðmundar var á þessum tíma svona mitt á milli Jóns Bjarnasonar og Þorvalds Gylfasonar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: