- Advertisement -

„Þetta er náttúrlega orðin slík þvæla“

„Já, það er nefnilega þannig að orð ráðherra skipta máli.“

Björn Leví Gunnarsson.

„Ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir nú býsna langt seilst í þessari fyrirspurn þegar orðaskipti eiga sér hér stað í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi og til grundvallar samtali sem fer hér fram liggur fyrir skriflegt svar ráðuneytisins, að þá komust menn að þeirri niðurstöðu, jafnvel þótt Hæstiréttur hafi vísað til þess að visst ósamræmi hafi verið milli þess sem féll hér í munnlegum fyrirspurnatíma, óundirbúnum, og þess sem sagði í skriflegu svari ráðuneytisins, að það sé á endanum bara á mína ábyrgð allt það sem þáverandi lögreglustjóri gerði. Þetta er náttúrlega orðin slík þvæla að ég eiginlega get ekki tekið þessu alvarlega. Hins vegar er það mjög til umhugsunar þegar menn fara út fyrir valdheimildir sínar og eru í raun og veru í algjörri valdþurrð að taka ákvarðanir að þær á endanum engu að síður þyki eiga að standa. Það er auðvitað mjög til umhugsunar. En við sitjum uppi með þá niðurstöðu æðsta dómstóls landsins og verðum að lifa með því,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á Alþingi.

Hann var að svara spurningum Björns Leví Gunnarssonar, um ákvörðun þáverandi ríkislögreglustjóra. Haraldar Johannesson að hækka nokkra starfsmenn þar í launum. Björn benti á að Bjarni hafði, sem fjármálaráðherra, sagt:

„Í þessu tilviki er það mat okkar í fjármálaráðuneytinu að menn hafi verið innan heimilda til að gera þær breytingar á starfskjörum sem um er fjallað í svarinu. […] Hér hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að í þessu tiltekna embætti hafi menn haft heimildir til að ganga frá þessari útfærslu samninga. Það verður bara að meta hverju sinni.“

„ÉG ÆTLA AÐ ÍTREKA ÞAÐ…“

„Já, það er nefnilega þannig að orð ráðherra skipta máli. Orð ráðherra vega þungt enda segir alveg mjög skýrt í 83. gr. efnisgrein dómsins, með leyfi forseta:

„Fyrir liggur að ekki er fullt samræmi milli hins skriflega svars ráðuneytisins og þessara ummæla ráðherra í umræðum á Alþingi. Sú krafa varð á hinn bóginn ekki gerð að stefndi kynnti sér sérstaklega hin skriflegu svör og bæri þau eftir atvikum saman við afdráttarlausar yfirlýsingar ráðherrans. Enn hlutu viðbrögð æðstu ráðamanna, tæpu hálfu ári eftir gerð samkomulagsins, að styrkja þá trú stefnda að formlegar og efnislegar heimildir hefðu verið til staðar til að skuldbinda áfrýjendur til að standa við umræddar kjarabætur.

Þarna eru það orð ráðherra sem skipta máli. Við hljótum að bera ákveðna virðingu fyrir því að orð ráðherra skipta máli. Þetta er valdamesta fólkið í okkar samfélagi. Og með tilliti til þess þá verður maður að velta fyrir sér hverjar afleiðingarnar eigi að vera. Verða frekari eftirmálar út af þessari ólögmætu ákvörðun til að byrja með? Verða frekari afleiðingar af síðan þessari í rauninni röngu stuðningsyfirlýsingu hæstvirts forsætisráðherra? “

Bjarni svaraði: „Ég ætla að ítreka það að ég var ekki með neinar yfirlýsingar hér í þinginu. Ég var að svara munnlegri fyrirspurn þar sem í fyrirspurninni var rakið sérstaklega upp úr svarinu sem lá til grundvallar samtalinu hér í þinginu hver afstaða fjármálaráðuneytisins væri. Allar bollaleggingar um það að orð mín hér í munnlegri fyrirspurn við einn ákveðinn háttvirtan þingmann séu það sem velti hlassinu í Hæstarétti finnst mér vera algjörlega út í hött og hef engu frekar við málið að bæta,“ svaraði Bjarni Benediktsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: