- Advertisement -

Kallar eftir neyðaráætlun í efnahagsmálum

„Sama gildir um Airbnb. Icelandair og Play, flugfélögin okkar, eru í störukeppni. Það er ósjálfbær rekstur hjá báðum.“

Jakob Frímann Magnússon.

Alþingi „Hér er talað um að kaupmáttur sé mestur, en engu að síður er fátækt vaxandi. Við finnum fyrir því að aðföng eru dýrari en nokkru sinni. Heimilin finna sannarlega fyrir því,“ sagði Jakob Frímann Magnússon, Flokki fólksins.

„Nú ber svo við að höfuðbúgrein okkar, ferðaþjónustan, virðist vera í krísu þrátt fyrir að hér sé talaði um vaxandi fjölda ferðamanna. Við sjáum að veitingahús borgarinnar erum meira eða minna hálftóm. Hótelin og gistihúsin finna fyrir dýfu í bókunum. Verðin virðast vera of há. Þau virðast vera að fæla fólk frá. Sama gildir um Airbnb. Icelandair og Play, flugfélögin okkar, eru í störukeppni. Það er ósjálfbær rekstur hjá báðum,“ bætti Jakob við og sagði næst:

„Efnahagskerfið okkar er þanið, gríðarháir vextir og verðbólga viðvarandi. Ríkisstjórnin hér þarf að efna til rýni ásamt Seðlabanka og bestu ráðgjöfum bæði landsins og annarra landa um hver viðbrögðin skuli vera. Meðulin hafa ekki virkað til þessa. Nýrra leiða er þörf. Ef við prísum okkur út af þeim markaði sem bjargaði okkur eftir bankahrunið 2008 þá erum við í vanda. Þess vegna kalla ég eftir því að menn horfi á þessar staðreyndir. Þær eru ekki mikið í umræðunni,“ sagði Jakob Frímann.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Það vill enginn vera að flagga því að það gangi verr en vera skyldi. Þetta er grafalvarleg staða og ég held að við höfum lagt of mikið traust á einn mann í einni stofnun á undanförnum árum. Hér þarf sameiginlega neyðaráætlun til að koma okkur út úr þessu, það gerist ekki af sjálfu sér,“ þessi voru lokaorð Jakobs Frímanns Magnússonar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: