- Advertisement -

Davíð Oddsson og McCarthyisminn

Gunnar Smári skrifar:

Davíð Oddsson, útgerðaraðallinn og Morgunblaðið lét aldrei af McCarthyismanum og vill því enn banna sósíalistum þátttöku í félagasamtökum og bola þeim úr starfi, ef þeir eru í vinnu. Svona vann Sjálfstæðisflokkurinn alla tíð, var í raun enn grófari en öfga-hægrimaðurinn Joseph McCarthy og fylgjendur hans. Mogginn, Davíð og kvótagreifarnir styðja nú öfga-manninn Donald Trump og byssu-, trúar- og nýfrjálshyggjunöttarana sem fylgja honum. Mogginn, Davíð og stórútgerðin er öfga-hópur í íslensku samfélagi, sem því miður hefur náð miklum völdum og brotið undir sig mikinn auð. Þann auð notar þessi öfga-hópur til að ráðast að öllum sem ekki falla fram og tilbiðja hann, alla sem þeim finnst ógna alræði auðvaldsins.

Hér eru Staksteinar sem eiga að vara félaga í samtökum aldraðra við sósíalistum. Þarna er því haldið fram sósíalistar vilji ekki efla almannasamtök heldur gera að þeim atlögu. Þegar sósíalistar studdu fyrir tveimur árum framboð grasrótarinnar í Eflingu gegn forystunni sem brotið hafði félaginu undir sig hélt Mogginn, Davíð, stórútgerðin og senditíkur hennar því fram að markmiðið væri að ná undir sig Eflingu svo Sósíalistaflokkurinn gæti tæmt þar alla sjóði. Þannig sér þessi öfga-hópur fyrir sér almannasamtök, sem lendur til að rányrkja eins og hann hefur lagst á og mergsogið allt í íslensku samfélagi. Reyndin var sú að ný forysta í Eflingu í samstarfi við nýja forystu í VR, sem Sósíalistaflokkurinn hefur líka stutt, varð kveikja að endurreisn verkalýðsbaráttu á Íslands, endurnýjun forystu Alþýðusambandsins og þess sem sumir kalla vor í verkó. Slík eru áhrif af endurnýjuðum krafti almannasamtaka, þá er eins og komi vor eftir langan og harðan vetur. Sósíalistar styðja og standa fyrir vorinu. Davíð, Mogginn og stórútgerðin er veturinn harði sem lamar hér allt, ömurlegur hópur öfgamanna sem tekist hefur að sveigja flest kerfi samfélagsins undir sig og sína þröngu hagsmuni.
Og skrifar hér Staksteina til að vara elstu kynslóðina við vorinu. Ekki breyta, segir Davíð, Mogginn og stórútgerðin. Leyfið okkur að ráða áfram, leyfið okkur að mergsjúga ykkur áfram, leyfið okkur að segja ykkur hvað þið megið kjósa, leyfið okkur allt og leyfið ykkur ekki neitt; ekki einu sinni að dreyma um betri tíð með blóm í haga.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: