- Advertisement -

N4 málið: Útgerðin er að eignast allt

Þróun sem fyrir löngu er komin á hættulegar slóðir og skerðir frelsi almennings hér á landi. N4 málið er angi á þessu ferli.

Úlfar Hauksson skrifaði:

Alltaf áhugavert að greina viðbrögð stjórnmálamanna þegar þeir eru reknir út í horn fyrir stjórnsýslufúsk – spillingu eins og það kallast á mannamáli. Að þessu sinni var það mikil „umræða“ sem „truflaði“ fúskið.

Skoðum þetta í víðara samhengi. Meðal eigenda umræddrar sjónvarpsstöðvar – sem nú eru að betla pening af alþýðunni – eru auðugustu aðilar Íslands, m.a. tvö af stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins. Nú eru það ekki nýjar fréttir að nokkrar útgerðir eru að eignast allt á þessu landi í skjóli ruðningsáhrifa kvótakerfisins… allt atvinnulífið frá brauðbakstri, samgöngum og flutningum, veitingahúsum, pítsu, og hamborgarabúllum… heilu bæjarfélögin… bókstaflega allt frá a til ö.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nú eru það fjölmiðlar. Og þar er „fíllinn“ étinn bita fyrir bita. Nú þegar er útgerðin með ítök svo vitað sé í Mogganum og Sýn og áðurnefndri N4. Samhliða þessu eignarhaldi er unnið markvisst að því – með aðstoð spindoktora – að grafa undan öðrum fjölmiðlum og fjölmiðlafólki sem flytja fréttir og stunda óháða dagskrárgerð. Að ná stjórn á fjölmiðlum er endapunkturinn í þeirri gríðarlegu eigna- og valdatilfærslu sem átt hefur sér stað á Íslandi og fór á fullt skrið um aldamótin.

Þróun sem fyrir löngu er komin á hættulegar slóðir og skerðir frelsi almennings hér á landi. N4 málið er angi á þessu ferli. Smá flís af fílnum. Og stjórnmálaflokkar sem nú sitja við völd veita ekkert aðhald… ekkert viðnám… sem er í senn sorglegt en þó fyrst og fremt óhugnarlegt… talandi um að útgerðin sé að eignast allt…. „Guð blessi Ísland“!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: