- Advertisement -

Sægreifi skilar ekki skattframtölum

Hvar getur svona fávitaháttur og hálfvitagangur átt sér stað? Það heitir alræði auðvaldsins, ástand þar sem hinir ríku hafa náð öllum völdum í samfélagið og hin lýðræðislegu kerfi sem gæta eiga að almannahag eru hætt að virka.

Best að endurbirta þessa frétt frá því í nóvember í fyrra.

Samfélag Frétt Fréttablaðsins um framgöngu Kristjáns Vilhelmssonar í Samherja, og konu hans, gagnvart skattayfirvöldum og máttleysi skattsins þess vegna er eflaust ein helsta frétt dagsins. Merkileg fyrir margan máta. Í stað þess að ráðast í skrif um málið er best að nota fréttaskýringu Gunnars Smára Egilssonar, sem hann skrifaði í morgun.

Þar segir: Þessi frétt er athygli verð á margan máta. Fyrir það fyrsta er það undarlegt kerfi að láta rentuna af sameiginlegum eignum þjóðarinnar renna til fáeinna fjölskyldna, sem nánast eru kaffærðar í peningum á meðan tugir þúsunda landsmanna eiga ekki fyrir mat út mánuðinn. Arður þessara hjóna af nýtingu sameiginlegra auðlinda nema næstum fjórðung af öllum veiðigjöldum útgerðarinnar í fyrra, þá fá álíka mikið í sinn hlut og 85 þúsund Íslendingar. Á hverjum mánuði fengu hjónin 103 milljónir króna í arð, 3,4 milljónir króna á hverjum degi ársins, 141 þúsund krónur á tímann, vakandi og sofandi.

Annað

Þú gætir haft áhuga á þessum

Annað er að við vitum að stjórnvöld hafa lækkað skatta á fjármagnstekjur svo þeir eru nú lægri en á launatekjur. Af öllum þessi arði borga hjónin 20% skatt en þyrftu að greiða 46,24% ef þetta væru launatekjur. Þetta eina ár sem er til umfjöllunar gaf ríkið hjónunum því eftir um 325 milljónir króna vegna þess að ríkið innheimtir minni skatta af þeim sem afla tekna af peningum sínum en þeim sem afla tekna með vinnu sinni. Þetta er gjöf okkar hinna til kapítalistanna, 27 m.kr. í hverjum mánuði til þessara hjóna. Þau eru líklega með þeim styrkþegum sem soga mest fé út úr ríkissjóði, þiggja þar framfærslu sem duga myndi vel á annað hundrað lífeyrisþegum. Munurinn er hins vegar sá að lífeyrisþegarnir eru tekjuausir og stuðningur við þá er upp á líf og dauða. Þessi hjón vita hins vegar ekki aura sinna tal, hafa auðgast óheyrilega á nýtingu auðlinda í eigu allra landsmanna. Og þar með líka í eigu lífeyrisþeganna, sem fá ekki framfærslu sem dugar út mánuðinn.

Það þriðja

Það þriðja sem er athygli vert er að skattrannsóknarstjóri gerir ekkert þótt hjónin telji ekki fram til skatts árum saman. Samt vita allir að þessi hjón eru meðal allra auðugasta fólks á landinu, það er vel þekkt að þau tilheyra þeim 10-15 fjölskyldum sem soga til sín svo til alla rentu af sjávarauðlindum landsmanna. Og skattrannsóknarstjóra er fullkunnugt um að rannsóknir sýna að skattsvik eru fyrst og fremst framin af hinum allra ríkustu. Fátækt fólk, lífeyrisþegar og venjulegt launafólk hefur engin tækifæri til skattsvika. Ný norsk rannsókn sýndi fram á að hinir allra ríkustu stinga um 35-40% af tekjum sínum undan skatti. Skattrannsókn ætti því fyrst og fremst að einbeita sér að því 1% landsmanna sem á mest og hefur mesta tekjur með sérstakri áherslu á það 0,1% sem þénar mest og á mest. Líta ætti á þennan hóp sem skattsvikara á skilorði. Og skattframtöl þess 0,01% (250 manns) landsmanna sem á mest og hefur hæstar tekjur ætti að taka sem sönnunargögn í glæpamáli. Það er nánast hægt að ganga út frá því sem vísu að þetta fólk, 0,01% ríkasta fólkið á Íslandi, 25 manns, sé að svíkja stórkostlegar upphæðir undan skatti, Og þegar einn úr þeim hópi, sem þessi hjón eru sannanlega, skila ekki inn skattaskýrslum ættu allar viðvörunarbjöllur að hringja hjá skattrannsóknarstjóra. Lélegasti skattrannsóknarstjóri í veröldinni, sá sem starfar í spilltasta landi, myndi vita upp á hár að ástæða þess að hjónin töldu ekki fram var að þau voru að koma sér undan skattgreiðslum. Samt lét skattrannsóknarstjóri það líðast árum saman að þessi hjón skiluðu ekki framtölum. Sú staðreynd kallar á rannsókn á vinnubrögðum embættisins og brottrekstur allra yfirmanna. Þetta fólk er álíka hæft til starfans eins og slökkvilið sem býr við hliðina á brennandi húsi án þess að hreyfa legg eða lið.

Það fjórða

Það fjórða sem er athygli vert er upphæð sektarinnar. Fólkið telur ekki fram árum saman og kemst hjá skattgreiðslum upp á einhverja upphæð sem við fáum ekki að vita hver er. Hjónin hafa ekki talið fram síðan 2005 og þegar málið er loks kannað eru tíu fyrstu árin fyrnd og ekki hægt að leggja á þau réttan skatt. Ofan á auðmannaafslátt íslenskra stjórnvalda, sem gera hjónin að Íslandsmeisturum í styrkjum og stuðningi, tóku þau sér aukastyrki út úr ríkissjóði án athugasemda frá 2005 til 2011. Innan þessa tíma eru bóluárin, Hrunið og svo mesta góðæri Íslandssögunnar í sjávarútvegi, þegar fáeinar fjölskyldur að baki stærstu útgerðarfyrirtækjunum drógu til sín gríðarlegan gengisgróða, sem var hin hliðin á gengisfalli krónunnar á móti gríðarlegri kaupmáttarskerðingu launafólks. Og þegar skatturinn loks athugar málið og kemst að stórkostlegum skattaundanskotum eru hjónin sektuð um sex milljónir króna. Það eru um 0,5% af tekjum þeirra hjóna á þessu tímabili. Þau ykkar sem hafið 450 þúsund krónur á mánuði í launatekjur, sem var meðaltal atvinnutekna á Íslandi í fyrra (um 2/3 landsmanna eru með slíkar tekjur eða minna) þá jafngildir sekt þeirra hjóna því að fólk í raunheimi, hérna megin lífskjarabaráttunnar, að venjulegt launafólk þyrfti að borga 26 þúsund krónur í sekt fyrir að svikið kerfisbundið undan skatti í tólf ár hið minnsta. Sektin frá skattinum er álíka mikið áfall fyrir þessi hjón og ef venjulegt fólk fengi 6 stöðumælasektir á tólf ára tímabili.

Hvaða rugl

Hvaða rugl er þetta eiginlega? kann einhver að spyrja. Hvar getur svona fávitaháttur og hálfvitagangur átt sér stað? Það heitir alræði auðvaldsins, ástand þar sem hinir ríku hafa náð öllum völdum í samfélagið og hin lýðræðislegu kerfi sem gæta eiga að almannahag eru hætt að virka. Nema til að auka enn við auð hinna ríku. Þetta er ástand, alræði auðvaldsins, ríkir á Íslandi og hefur gert lengi. Og ekkert bendir til að það sé að gefa eftir völd sín. Þvert á móti er auðvaldið enn að herða völd sín.“

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: