- Advertisement -

Í gjaldþroti á ekki að felast happdrættisvinningur

Samfélag „Það á að vera íþyngjandi en ekki æskilegt fyrir einstakling að vera úrskurðaður gjaldþrota. Í gjaldþroti á ekki að felast happdrættisvinningur sem leysir skuldara undan öllum fjárskuldbindingum á skömmum tíma eftir gjaldþrot.“ Þetta skrifar Haukur Örn Birgsson lögmaðurí Viðskiptablað Morgunblaðsins í dag.

Þar rekur hann breytingarnar á fyrningarfresti krafna, sem nú er tvö ár, en var áður tíu ár. Tveggja ára fyrningartími var samþykktur á Alþingi í kjölfar hrunsins, til bráðabirgða til fjögurra ára.

„Eftir lagabreytinguna fjölgaði gjaldþrotum einstaklinga mikið og leyfi ég mér að fullyrða að dregið hafi verulega úr hvata fólks til að halda forræði yfir búi sínu. Ég hef heyrt það oft í mínum störfum að það þyki ekki lengur vera tiltökumál að „fara í þrot“ þótt áður fyrr hafi það verið stórmál, sem fólk reyndi að forðast í lengstu lög,“ skrifar Haukur Örn.

„Eðlilegt fjármála- og réttarkerfi verður að byggja á því að aðilar séu bundnir af samningum sínum og því má ekki vera ákjósanlegt að standa ekki við skuldbindingar sínar. Í kjölfar bankahrunsins komu fram háværar kröfur um úrræði í þágu fólks í fjárhagserfiðleikum og brást löggjafinn við, m.a. með framangreindum hætti. Verður hér fullyrt að löggjafinn hafi gengið fulllangt í viðleitni sinni þótt aðstæður hafi langt í frá verið auðveldar.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Haukur endar greinina með þessum orðum: „Endurskoðun fyrningarákvæða laganna á að ljúka á þessu ári og getur málinu lokið með tvennum hætti; annaðhvort verður óbreytt ástand eða fyrningarfresturinn verður lengdur og slakað verður á skilyrðum fyrningarslita. Verði síðari kosturinn ofan á þá felast hagsmunir einstaklinga í fjárhagserfiðleikum augljóslega í því að lýsa sig gjaldþrota áður en ný lög taka gildi. Líklega verður ástandið óbreytt því oft er það þannig að fá úrræði stjórnvalda eru eins varanleg og þau sem eiga að vera tímabundin.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: