- Advertisement -

Áhugalausir ráðamenn í aðdraganda verkfalla

Hungurlúsin er það eina sem SA hefur fram að færa.

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Iðnaðarmenn slitu samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins í gær. Ástæðan var sú sama og hjá Starfsgreinasambandinu: Árangurslaus samningafundur hjá ríkissáttasemjara eins og áður. Iðnaðarmenn voru búnir að sitja á samningafundum vikum saman eins og Starfsgreinasambandið án nokkurs árangurs. Sjálfsagt hafa á þessum langa tíma verið afgreidd einhver frágangsmál á nýjum kjarasamningi eins og veikindadagar og fleira. En það tókst ekki að ná samkomulagi um styttingu vinnutíma, sem miklum tíma var eytt í.

Það er vegna þess að atvinnurekendur vildu láta launafólk greiða sjálft að 
einhverju leyti fyrir styttingu vinnutímans. Atvinnurekendur átta sig ekki einu sinni á því að styttri vinnutími er í þágu beggja aðila,launþega og atvinnurekenda. Styttri vinnutími skapar aukna vinnugleði, aukin afköst; það hafa rannsóknir sýnt.

Þess vegna hefði mátt búast við því, að atvinnurekendur mundu grípa það fegins hendi að gera samkomulag um styttingu vinnutíma. En nei. Þeir voru ekki tilbúnir til þess, ekki nema launafólk greiði sjálft fyrir styttinguna að verulegu leyti!!

Það furðulega er, að í þessum viðræðum aðila hjá ríkissáttasemjara sem nú hefur verið slitið, hafa Samtök atvinnulífsins ekki lagt fram neitt nýtt launatilboð. Hungurlúsin, sem SA bauð í upphafi virðist það eina, sem atvinnurekendur hafa fram að færa. SA virðist ekki skilja eða ekki vilja skilja að verkalýðsfélögin ætla ekki að semja um minna, en það sem dugar vel til framfærslu, þ.e. til þess að lifa og taka sómasamlegan þátt í lífinu. Kröfur Starfsgreinasambandsins, sem lagðar voru fram í upphafi, byggðust á þessu.

Nú hefur Framsýn á Húsavík einnig bæst í hóp þeirra verkalýðsfélaga, sem undirbúa verkfallsaðgerðir. Það stefnir því í allsherjarverkfall. En yfir 100 þús. manns eru félagar í þeim verkalýðsfélögum, sem nú undirbúa aðgerðir. Rætt var við forsætisráðherra í gær. Hún var m.a. spurð að því hvort til greina kæmi að setja lög á verkföllin. Hún svaraði því, að ekki væri tímabært að ræða um það. Um leið og stjórnin lætur sér detta það í hug er hún fallin. KJ hefur ekki sýnt neinn áhuga eða skilning á að leysa kjaradeiluna eins og sást best á því þegar hún fór til Bandaríkjanna í miðju verkfalli. Það hefði þótt saga til næsta bæjar, ef Jóhanna Sigurðardóttir eða Hermann Jónasson hefðu gert slíkt undir svipuðum kringumstæðum.

Sólveig Anna formaður Eflingar skrifaði í gær, að hún hefði verið ausin svívirðingum af ýmsum (öfgasinnuðum ) fulltrúum atvinnurekenda fyrir þær sakir einar að vilja tryggja lægst launaða verkafólkinu mannsæmandi laun. Eins og margir aðrir fordæmi ég þessar árásir á Sólveigu Önnu. Tel að að hún hafi staðið sig fráfærlega vel.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: